138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fyrsta sem hv. þingmaður kom inn á var færslan frá heilbrigðisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið. Þannig var, ég get upplýst hv. þingmann um það, að það fór akkúrat engin umræða fram um það í fjárlaganefnd, akkúrat ekki nein. Á fundi sem fjárlaganefnd átti með hv. heilbrigðisnefnd kom meira að segja fram gagnrýni frá stjórnarþingmönnum þar og þeir gerðu stórar athugasemdir við það að verið væri að færa allan hjúkrunarþáttinn, eins og hv. þingmaður bendir á, frá heilbrigðisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið án þess að nokkur umræða um það fari fram í þingnefndum, í nefndum þingsins, ekki ein einasta umræða. Það kom mér verulega á óvart, ég viðurkenni það bara, virðulegi forseti, því að ég hafði reiknað með því og hafði ekki gert mér grein fyrir því að svona ákvarðanir yrðu teknar án þess en fara í gegnum fagnefndirnar. Það var aldrei fjallað um þetta í hv. heilbrigðisnefnd fyrr en búið var að afgreiða út fjárlagafrumvarpið. Maður hefði haldið að ákvarðanatakan í svona málum ætti að fara fram í fagnefndunum. Í raun og veru sýna ráðherrarnir og framkvæmdarvaldið fagnefndunum og þinginu óvirðingu með þessum vinnubrögðum. Auðvitað eru þessar fagnefndir til þess að fjalla um málin. Og það er auðvitað mjög gott og hæft fólk í öllum nefndunum sem hefur mikla þekkingu á einstökum málum.

Ég bendi á að hv. þm. Þuríður Backman er formaður heilbrigðisnefndar, hefur góða fagþekkingu og einmitt þekkingu á þessum málaflokki. Það er mjög athyglisvert að þetta skyldi gert svona.

Síðan spyr hv. þingmaður um áætlun 20/20, hún heitir það, ég man það en ég veit ekkert um hvað hún fjallar. Ég veit ekkert um hvað hún er vegna þess að hún hefur aldrei fengið kynningu og ég lít svo á að þetta sé bara eins og pólitískur bitlingur fyrir varaformann Samfylkingarinnar. Ég bendi á það líka eins og ég sagði í ræðu minni að frá 1. febrúar sl. er búið að ráða 50 manns (Forseti hringir.) inn í öll ráðuneytin án þess að auglýsa þannig að það segir sig sjálft, þetta er hið nýja norræna velferðarríki.