138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:45]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kannast ekki við þessa lýsingu hv. þingmanns á veruleikanum. Ég kannast ekki við að við höfum tekið illa í eða hafnað samstarfi við stjórnarandstöðuna ef það hefur verið í boði. Það þarf tvo til. Der skal to til, segir danskurinn og það gildir hér líka. Stjórnarandstaðan verður líka að velja sér baráttuaðferðir og taktík.

Ég spyr: Hafa menn upplifað málflutning stjórnarandstöðunnar hér undanfarnar vikur og það hvernig hún hefur staðið að málum sem sérstök samstarfstilboð? Hefur það verið fólgið í framgöngu stjórnarandstöðunnar? Það er ekki nóg að segja það í framhjáhlaupi á milli þess sem lagst er gegn öllu og hamast gegn öllu. Það hefur því miður verið aðalframlag stjórnarandstöðunnar að undanförnu og ég leyfi mér að gagnrýna það á móti. Hv. þingmaður má að sjálfsögðu kvarta yfir því að hann sé ekki svo gott sem tekinn inn í ríkisstjórnina en það gerist ekki nema menn (Forseti hringir.) a.m.k. verðskuldi það og hafi sýnt sig vera samstarfshæfa og í færum til þess að axla ábyrgð.