138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:22]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, formanni menntamálanefndar, fyrir ræðu sína hér áðan. Mig langar til að spyrja hana nokkurra spurninga um það sem fram kemur í breytingartillögum við framlagt fjárlagafrumvarp og breytingar á milli 1. og 2. umr., t.d. um það sem varðar framhaldsskólana almennt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að óskipt 140 millj. kr. tímabundið framlag til frumgreinadeilda á Suðurnesjum og Vestfjörðum detti út, en ég sé að það er komið inn aftur upp á 108 milljónir og framlag til framhaldsskólanna er óskipt upp á 165 milljónir. Mig langar til að spyrja hv. formann menntamálanefndar hvar þessi ákvörðun var tekin og af hverjum, þar sem þetta er með öðrum hætti en greint var frá í frumvarpinu og ekki rætt í menntamálanefnd að setja þetta fram með þessum hætti.

Einnig langar mig til að spyrja hv. þingmann og formann menntamálanefndar um lið 4.51 sem er símenntun og fjarkennsla. Er það viðbót við það sem áætlað var? Var hætt við að skera niður? Hvar var sú ákvörðun tekin að hætta við að skera niður og setja þessa fjármuni inn aftur? Því ekki var hún tekin í fagnefndinni.

Að lokum langar mig til að spyrja hv. þingmann, formann menntamálanefndar: Hver er aukning í milljónum talið á milli 1. og 2. umr. þegar kemur að menntamálanefnd og menntamálum?