138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:36]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Vegna umræðna um vinnslu á Icesave og aðkomu efnahags- og skattanefndar þá hygg ég að okkur hafi borist erindi fjárlaganefndar um að taka málið til vinnslu á fimmtudagskvöldið. Við tókum það erindi auðvitað strax til meðferðar og sendum út óskir um gesti eftir samráð við nefndarmenn. Ég held að full sátt hafi verið um það hvaða gestir voru kallaðir til og fundur var haldinn, einn af mörgum fundum efnahags- og skattanefndar, á laugardaginn með þeim gestum og farið yfir málin. Það var auðvitað með skömmum fyrirvara þannig að ég gerði gestum grein fyrir því að við hefðum tíma fram í miðja þessa viku til að taka við frekari viðbótarupplýsingum frá þeim. Þeim var síðan send árétting um það skriflega á sunnudag eftir að nefndarmaður hafði gert athugasemdir við þann skamma tíma sem aðilar hefðu haft til undirbúnings.

Síðan er (Forseti hringir.) til skoðunar ósk hv. þm. Péturs Blöndals um vinnslu á áhættugreiningu, en ekki virðist vera hægt að ljúka þeirri vinnu (Forseti hringir.) fyrr en á milli jóla og nýárs og ég hefði fyrir fram (Forseti hringir.) talið að þá yrði umfjöllun efnahags- og skattanefndar lokið.