138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það fer dálítið tvennum sögum af skattalækkuninni vegna þess að ég veit ekki betur en margir stjórnarþingmenn hafi undanfarið talað um gífurlega hækkun á sköttum vegna þess að ríkið tók alltaf meiri og meiri álögur af atvinnulífi og almenningi. Hvort er hækkun á sköttum þegar ríkið leggur meiri álögur á atvinnulíf og fyrirtæki eða þegar prósentan er lækkuð? Það er nefnilega þannig, og það sem hv. þingmaður þarf að skilja, að skattstofnarnir blómstruðu, þeir sprungu út, og nú er einmitt verið að skattleggja og hættan er sú að skattstofnarnir hnígi niður nákvæmlega eins og hrossið sem lagt er of mikið á.

Það vantar dálítið mikið og ég vil endilega að þingmenn vinni saman að lausn þessa vanda. Við höfum lagt fram tillögu um að koma með aðra leið til að byrja með, síðan að ári geta vinstri menn komið með sína margþrepa skatta og allt sem þeir vilja með góðum tíma, þannig að búið sé að fara í gegnum alla þættina. Við höfum líka lagt fram niðurskurð á mörgum sviðum og það var ekki haft samráð vegna þess að hraðinn var svo mikil í nefndinni, í fjárlaganefnd, að það var ekki nokkur leið að gera nokkurn skapaðan hlut.

Það vantar tvennt í fjárlagafrumvarpið, það vantar Icesave og það vantar tónlistarhúsið, gífurlegar upphæðir. Ég vil minna á að Icesave hefur frá því í ársbyrjun þessa árs hækkað um 100 milljarða vegna gengisfalls krónunnar, um 100 milljarða hefur þetta skuldabréf sem búið er að skrifa undir hækkað. Það er andvirði tveggja sjúkrahúsa, háskólasjúkrahúsa í Reykjavík, sem það hefur hækkað plús vextir sem eru 45 milljarðar. Mér finnst þetta vanta inn í umræðuna og hv. þingmaður hefur aldrei tjáð sig um Icesave hið síðara. Nú langar mig til að heyra örlítið um það.