138. löggjafarþing — 47. fundur,  16. des. 2009.

aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

204. mál
[14:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég held að þessi aðgerðaáætlun — eins og markmiðin eru nú falleg og góð getum við flest öll verið sammála um að hún hafi endurspeglað að miklu leyti þá vitleysu sem Ísland var komið í árið 2007 þar sem átti að gera allt strax.

Mig langaði til að benda á að þótt það séu náttúrlega margir liðir í þessari aðgerðaáætlun sem munu kosta ríkissjóð mikið, og miðað við stöðu ríkisins er alveg ljóst að það verður erfitt að fylgja þessari áætlun eftir, eru þarna liðir sem eiga raunar ekki að kosta mikið eða jafnvel neitt. Það varðar réttarstöðu foreldra og að jafna hugsanlega hlut kynjanna og sérstaklega feðra varðandi umgengni við börnin sín. Ég held að ríkisstjórnin og hæstv. félagsmálaráðherra ættu tvímælalaust að skoða hvað í þessari aðgerðaáætlun sé hægt að gera (Forseti hringir.) án þess að til falli mikill kostnaður með því að bæta einfaldlega lagaumhverfið.