138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

störf þingsins.

[10:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða um skatta en tek þó undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni, það vita allir sem vilja vita að það er algjörlega vonlaust að skattleggja þjóðina út úr því ástandi sem ríkir. Þetta hefur ekkert að gera með þá lausn, því miður er þetta vegna þess að vinstri flokkana langar til að hækka skatta og þeir nota öll tækifæri til að koma því í framkvæmd.

Virðulegi forseti. Ég er að koma úr hv. heilbrigðisnefnd. Ég vildi upplýsa þingið og þjóðina um hvað gerðist þar. Þar fengum við í fyrsta skipti gesti til að ræða verkefnatilflutning upp á 20 milljarða kr. Gestirnir sem voru fagaðilar, fulltrúar notenda, vissu að vísu ekki af því. Gestirnir komu algjörlega af fjöllum, höfðu aldrei heyrt um þetta. Við ætlum að afgreiða þetta eftir tvo daga, 20 milljarða verkefnatilflutning sem er stærri en verkefnatilflutningurinn á grunnskólunum til sveitarfélaganna. (Gripið fram í.) Hæstv. utanríkisráðherra þykir þetta fyndið.

Virðulegi forseti. Þar upplýsti okkar helsti sérfræðilæknir um öldrunarlækningar okkur um að hjúkrunarheimili eru, eins og hann orðaði það sjálfur, 95% heilbrigðismál og 5% félagslegt mál. Talsmenn eldri borgara upplýstu okkur um að þau væru ekki í neinu samráði, hefðu ekki haft neina vitneskju um þessa hluti og hefðu af þessu mjög miklar áhyggjur. Hjúkrunarfræðingar tóku undir þessar áhyggjur og enginn sem kom þarna inn mælti þessu bót.

Virðulegi forseti. Samfylkingin lítur á þetta sem einhvers konar feng sem er fenginn með undirskrift (Forseti hringir.) fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra og þessu verður troðið ofan í Vinstri græna eftir nokkra daga. (Forseti hringir.) Þegar það gerist mun þessi ríkisstjórn aldrei geta talað um að hún stundi fagleg vinnubrögð.