138. löggjafarþing — 50. fundur,  18. des. 2009.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson talaði um rannsókn sem sýnir fram á að í kjölfar samdráttar í efnahagslífinu sé meira örvandi fyrir hagvöxtinn að lækka ríkisútgjöld en lækka skatta. Ég tek fram að það er mjög mikilvægt að skoða í hvers konar ástandi hagkerfið er þegar kreppa eins og fjármálakreppan sem við erum að kljást við núna skellur á hagkerfinu. Þegar kreppan skall á voru skattstofnarnir í sögulegu lágmarki vegna þess að stjórn Sjálfstæðisflokksins lækkaði skatta verulega og dró jafnframt úr eða minnkaði þennan skattstofn þannig að það svigrúm sem núverandi stjórnvöld hafa til að lækka skatta er mjög lítið.

Þó nokkrum löndum hefur tekist að vinna sig út úr fjármálakreppu með því einmitt að hækka skatta. Nægir í því sambandi að nefna Svíþjóð í byrjun 10. áratugar síðustu aldar þegar skattar á flesta tekjuhópa voru hækkaðir verulega en þó mest á hálaunafólkið og tókst Svíþjóð á örskömmum tíma, innan við þremur árum, að vinna sig út úr fjármálakreppunni. Þar í landi eru í dag hærri þjóðartekjur á mann en hjá flestum öðrum þjóðum Evrópu og Norður-Ameríku. Það er því mjög misjafnt hvaða leið er best að fara (Forseti hringir.) og það fer eftir því í hvernig ástandi efnahagslífið er þegar kreppan skellur á.