138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[17:29]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að sé mikilvægt fyrir landsmenn og þingheim að átta sig á því af hverju sjálfstæðismenn eru svo hjartanlega á móti þeim skatti sem hér er til umræðu, umhverfis- og auðlindaskatt. Við erum hér að skattleggja þá sem menga, þá sem nota rafmagn og þá sem nota heita vatnið. Sjálfstæðismenn eru fyrst og fremst hræddir um þann hagsmunahóp sem þeir hafa barist hart fyrir undanfarin ár, en það eru eigendur kvótans, sem halda utan um fiskinn í sjónum kringum landið. Sá hópur einstaklinga óttast auðlindaskatt. Sjálfstæðisflokkurinn stendur í hagsmunabaráttu fyrir þann hóp því að hann veit að við erum að tala um auðlindarentu, að menn sem fá úthlutað auðlindum lands og sjávar eigi að borga fyrir það álögur til landsmanna, sérstaklega þegar landsmenn þurfa á því að halda við núverandi efnahagsþrengingar.