138. löggjafarþing — 51. fundur,  18. des. 2009.

umhverfis- og auðlindaskattur.

257. mál
[17:39]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Já, alltaf endar þetta á Evrópusambandinu, það er gaman að sjá hv. þingmann, formann Heimssýnar, skjóta sér hérna inn í hliðarherbergi.

Ég var nefnilega farin að treysta á Evrópusambandið í þessu tiltekna máli vegna þess að þegar hæstv. umhverfisráðherra svaraði spurningum Evrópusambandsins, eða hennar starfsfólk, um það hvort halda ætti til haga íslenska ákvæðinu, svaraði hæstv. umhverfisráðherra öðruvísi en hún hafði svarað hér í íslenskum fjölmiðlum. (VigH: Rétt.) Það var nefnilega verið að nota þarna pólitík til heimabrúks sem hæstv. fjármálaráðherra talar stundum um. En í því sem fór til Evrópusambandsins er nefnilega sagt að ekki væri búið að gefa þetta frá okkur. En ég held þetta sé vottur af spéhræðslu. Rökstuðningurinn fyrir því að gefa eftir íslenska hagsmuni, gefa eftir íslenska ákvæðið, er sá að það sé okkur ekki sæmandi að vera að óska eftir undanþágu. Það er okkur ekki sæmandi. Við viljum ekki standa í undanþágubiðröðinni, heyrði ég einhvern tímann haft eftir hæstv. umhverfisráðherra.

Ég verð að segja að það hefur verið farið rangt með þetta íslenska ákvæði í opinberri umræðu. Það er verið að reyna að láta þetta líta þannig út að íslenska ákvæðið sé einhver ölmusa, (VigH: Rétt.) en það er ekki það. Íslenska ákvæðið kemur ekki bara Íslandi til góða. Af hverju ætti heimurinn allur að hafa samþykkt eitthvað sem kæmi bara Íslandi til góða? Nei, heimurinn allur féllst á þetta í Kyoto vegna þess að það kom heiminum til góða. En það kallar hæstv. umhverfisráðherra að fara í undanþágubiðröðina og henni finnst það hallærislegt. Það er sorglegt.

Ég held að við þingmenn ættum að vera á vaktinni. Þegar hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. forsætisráðherra, sem brá sér líka af bæ, koma frá Kaupmannahöfn ættum við að óska eftir því að fá skýrslu um þetta mál og hvernig þessi heimild ráðherrans (Forseti hringir.) er tilkomin.