138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[00:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hann víkur m.a. að því að það sé farin dálítil Krýsuvíkurleið að því að ná tökum á reiknaða endurgjaldinu sem menn hafa reiknað sér í einkahlutafélögunum. Það er af ástæðu. Það er einfaldlega vegna þess að það hefur reynst mjög erfitt að halda utan um þá skattlagningu. Það vekur athygli manns á einu að hv. þingmaður er eindreginn talsmaður þess í orði kveðnu að einfalda skattkerfið. Samt beitti hv. þingmaður sér fyrir því, ásamt meðflokki sínum, að innleiða einkahlutafélög og þær skattareglur sem utan um þau eru, sem eru sennilega eitthvert almesta flækjustig sem hefur verið innleitt hér á landi hvað varðar tekjur einstaklinga á síðari árum. Vegna þess að þar koma þúsundir manna sem áður töldu fram einfaldlega sem launamenn og eru orðnir að rekstraraðilum með ofboðsleg uppgjör og allt aðrar skattprósentur en venjulegt fólk. En svoleiðis flæking á skattkerfinu, er hún allt í lagi að mati hv. þingmanns? Má flækja skattkerfið til að mæta þörfum sumra? Má bara ekki flækja skattkerfið til að láta þá sem hafa hærri tekjur borga meira?