138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ekki gera lítið úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Ég tek fullt mark á þessum sjónarmiðum og er alveg sammála því í sjálfu sér að mikil skattlagning á einstaklinga og fyrirtæki torveldar þeim lífið, gerir þeim erfiðara um vik. Að sjálfsögðu væri gott ef við gætum lækkað hvorttveggja, skattana á einstaklingana og fyrirtækin, það væri vissulega eftirsóknarvert.

Hv. þingmaður segir jafnframt að hann vilji hafa hér gott heilbrigðiskerfi og gott skólakerfi. Hann er gagnrýninn á gjaldtöku á nemendur og sjúklinga. Þá er úr vöndu að ráða. Við þurfum að afla fjármuna til að reka þetta kerfi. Ég sé ekki annað en að við verðum alla vega að fara þá bil beggja, reyna eftir föngum að ná í auknar skatttekjur. Ég sé ekki betur en að við eigum ekki annarra kosta völ en að fara þessa leið þó ég skilji þá hugsun sem hv. þingmaður byggir sína pólitísku afstöðu á, að til lengri tíma dugi okkur best að efla skattstofnana og örva gangverkið í efnahagslífinu. En þegar við skoðum veruleikann er staðreyndin sú að við eigum nokkur erfið ár fram undan og ég sé ekki betur en ríkisstjórnin fari mjög hyggilega leið í þessu efni, reyni að fara bil beggja. Við erum með 160 milljarða halla á þessu ári, það stefnir í 100 milljarða á næsta ári vegna þess að við viljum fara varlega í hvorttveggja, að skera niður velferðina og hækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki.