138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[01:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef fullan skilning á viðhorfum hv. þm. Ögmundar Jónassonar í þessum efnum en ég er ekki sammála þeim. Ég er ekki sammála þeirri niðurstöðu að við verðum að fara þessa leið. Ég held að við hv. þm. Ögmundur Jónasson þyrftum ekki að lesa fjárlagafrumvarpið lengi til þess að sjá að verið er að verja fjármunum í mjög margt annað en heilbrigðismál og skóla, bara svo dæmi sé tekið.

Ég verð að minna á að bara haustið 2007 voru teknar ákvarðanir um að auka ríkisútgjöldin hér um 20% milli ára, 20% að raunvirði milli ára. Ætla menn að segja að það sé ekki hægt að skera niður nema um 7% núna eins og gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu? Ég held ekki. Haustið 2007, þegar við afgreiddum hér fjárlög sem ég studdi en hv. þm. Ögmundur Jónasson ekki reyndar, þannig að því sé til haga haldið, jukum við ríkisútgjöldin um 20% að raunvirði, bara þá.

Ég er því alveg sannfærður um að við getum skorið meira niður en um þau 7% sem nú er gert ráð fyrir í fjárlagagfrumvarpinu. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvort fyrir því væri meiri hluti hér á Alþingi en ég held að við ættum að reyna það.

Til að draga það saman sem ég er að segja held ég að eina leiðin til þess að ná okkur upp úr þeirri vondu stöðu sem við erum í í dag sé að auka umsvif í samfélaginu, auka möguleika heimila og fyrirtækja á því að standa í skilum með lán, auka möguleika fyrirtækja á að ráða til sín fleira fólk, fara í nýjar fjárfestingar o.s.frv. Þetta frumvarp vinnur gegn því en ekki með því.