138. löggjafarþing — 55. fundur,  20. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[02:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hér er ég með vatn og hér er aðeins meira vatn, þetta er hin blandaða leið ríkisstjórnarinnar, þetta er hin blandaða leið, og svo hristir maður aðeins en þetta er enn þá vatn. Þetta er bara nákvæmlega það sama og með ríkisstjórnina og skattatillögur hennar. Þetta er ekkert annað en eitthvert orðagjálfur. Núverandi ríkisstjórn er að skera minna niður á þessum fjárlögum en síðasta ríkisstjórn gerði eftir að fjárlagafrumvarpið var lagt fram haustið 2008. Svo flissa menn hér í einhverjum taugatitringi yfir því að menn skuli vera að benda á einfaldar staðreyndir.

Það sem ég vil hins vegar segja við hv. þingmann um sameiningu skólastofnana: Já, það verður að halda áfram að auka samvinnu, auka samrekstur og reyna að leita allra leiða, hvort sem það er innan menntakerfisins eða annarra sviða í samfélaginu til að reksturinn verði sem hagkvæmastur, til að ríkisborgarar á Íslandi þurfi að greiða sem minnsta skatta þannig að þeir geti haft í sig og á og atvinnufyrirtækin fari að starfa að nýju (Forseti hringir.) og af meiri krafti en þau gera í dag.