138. löggjafarþing — 56. fundur,  21. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[09:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Svo mörg skattafrumvörp streyma inn í þingið þessa dagana að það er ekki nema von að menn ruglist á því hvað verið er að fara í gegnum. Ég vil ítreka þá afstöðu sem fram hefur komið af hálfu okkar sjálfstæðismanna gegn þeirri efnahagsstefnu sem birtist í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar, tillögum um umfangsmiklar skattahækkanir við þær aðstæður sem nú eru í íslensku þjóðfélagi þar sem samdráttur er vegna þess að bankarnir hrundu. Við þurfum að draga saman útgjöld ríkisins. Heimilin í landinu borga miklu meira vegna íbúða og bíla, bæði þau lán sem eru gjaldeyristengd og þau sem eru tengd við vísitölu. Skattahækkanir við þessar aðstæður gera það að verkum að líkurnar á að það verði meiri samdráttur og kreppan verði dýpri og lengri eru núna miklu meiri en áður. Ríkisstjórnin kallar það yfir (Forseti hringir.) þessa þjóð.