138. löggjafarþing — 57. fundur,  21. des. 2009.

tekjuöflun ríkisins.

256. mál
[11:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum í 3. umr. um þetta frumvarp til laga um tekjuöflun ríkisins. Það má segja að flestar þær athugasemdir sem þinginu hafa borist frá umsagnaraðilum í málinu séu í sama anda og við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir allt þetta ár frá því fyrir kosningar, þeim anda sem sveif yfir efnahagstillögum okkar sem teflt var fram strax í júní og síðan aftur í haust. Þar er meginatriði að núna búum við ekki við aðstæður til að leggja auknar byrðar á einstaklinga, heimili eða atvinnustarfsemi í landinu. Um þetta grundvallaratriði virðist vera skýr ágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna tveggja og okkar í stjórnarandstöðu þar sem ríkisstjórnin hefur ekki viljað taka til alvarlegrar skoðunar aðrar leiðir sem við höfum bent á til lausnar á vandanum.

Sannarlega er mikill vandi fyrir dyrum. Sannarlega getum við ekki búið við fjárlagahalla af þeirri stærðargráðu sem við sjáum á þessu ári og lagt er upp með á næsta ári til lengri tíma. Augljóst er að við verðum fljót að komast í stórkostleg vandræði til langs tíma ef okkur tekst ekki að laga fjárlagahallann og gatið í rekstri ríkisins hratt og örugglega á um það bil 2–4 árum. Þess vegna eiga menn að leggja kapp á það í þinginu að tefla fram og takast á um efnahagstillögur sem líklegar eru til að greiða leiðina sem allra fyrst út úr þessari þröngu stöðu. Um þessa nálgun er mikill ágreiningur á milli flokkanna og ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst hálfdapurlegt í hvaða farveg umræðan hefur farið á hinu háa Alþingi. Umræðan af hálfu stjórnarflokkanna hefur einkum borið þess merki að þeir telji sig þurfa að gera upp fortíðina, þeir þurfi að tala um það hvers vegna við erum komin í þessa stöðu, hvað það var sem fór úrskeiðis. Merkilegt er að hlusta t.d. á þingmenn Samfylkingarinnar láta hver stóryrðin falla af öðrum, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi eyðilagt skattstofnana í landinu. Hvað var sá ágæti flokkur að hugsa fyrir kosningarnar 2003 með risastóran skattalækkunarpakka upp á yfir 20 milljarða? Flokkarnir sem buðu fram fyrir kosningarnar 2003 töluðu fyrst og fremst um að lækka skatta, hver á fætur öðrum. Nú koma þessir sömu menn og báru ábyrgð á þeirri stefnu upp í ræðustól og tala um að við höfum ratað í þessar ógöngur vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hafi með einhverjum hætti eyðilegt skattstofnana. Þessi flokkur sem ég minntist á, Samfylkingin, var líka í ríkisstjórn frá árinu 2007 og hans spor í þeirri ríkisstjórn markast fyrst og fremst af útgjaldaaukningu. Það kom kippur í vöxt útgjalda ríkisins þegar Samfylkingin kom í ríkisstjórn og sá fjárlagahalli sem við glímum við núna er ekki síst þeirri stefnu Samfylkingarinnar að kenna að koma inn í ríkisstjórn og stórauka útgjöld ríkisins. Það er því heldur holur hljómur í málflutningi þeirra sem nú sitja í ríkisstjórn þegar talað er um að allt sé þetta Sjálfstæðisflokknum að kenna og hafi ekkert með þeirra eigin áherslur að gera.

Mergur málsins er einmitt sá að í stað þess að nota tímann á Alþingi, þennan dýrmæta tíma sem við höfum til að taka mikilvægar ákvarðanir, til að ræða í þaula hvers vegna við höfum ratað í þessa stöðu þá eigum við að ræða og takast á um leiðir út úr henni. Þá umræðu hafa menn viljað forðast og það er af veikleikum sem stjórnarflokkarnir hafa viljað forðast þá umræðu. Þeir hafa ekki þorað í hana af neinu kappi þar sem við sjálfstæðismenn höfum mætt með öfluga stefnu til leiks, leið sem forðar heimilum og atvinnulífi frá auknum álögum við þessar viðkvæmu aðstæður. Við höfum aldrei sagt að það væri gallalaus leið. Við höfum sagt að hún væri betri en sú að auka skattana.

Um þessa skattahækkunarstefnu sem ríkisstjórnin er að keyra í gegn er auðvitað hægt að hafa fjölmörg orð, bæði um hvort einfaldlega sé rétt að hækka skatta og efnahagsleg áhrif af því en líka aðferðafræðina sem notuð er og hvar menn drepa niður fæti við hækkun skatta. Mig langar til að byrja stuttlega á því að fara yfir neikvæð áhrif af þeim skattkerfisbreytingum sem við erum að innleiða. Það er viðurkennd, hagfræðileg staðreynd að fjölþrepa skattkerfi eins og við ræðum um dregur úr hvata til frumkvæðis, nýsköpunar, dugnaðar og jafnvel menntunar þar sem jaðarskattarnir verða sífellt hærri. Umsagnaraðilar hafa bent á að jaðarskattar í þessu fjölþrepa skattkerfi sem við ræðum nú geti hjá millitekjufólki orðið allt að 60%. Þetta er hlutfall skattgreiðslu af síðustu krónunni sem menn þéna. 60% jaðarskattur er allt of hár, það er bara svo einfalt. Við viljum ekki byggja upp skattkerfi, a.m.k. ekki við í Sjálfstæðisflokknum, þar sem jaðarskattarnir verða svo háir að það dregur stórkostlega úr hvata til þess að leggja á sig. Ég held að ein mesta auðlind sem við Íslendingar höfum sé viljinn til að leggja á sig, dugnaðurinn og krafturinn sem býr í fólkinu í landinu, og það er hann sem við þurfum að virkja við þær aðstæður sem núna hafa skapast hjá okkur.

Jaðarskatturinn verður um 60% hjá millitekjufólki við þessar breytingar en séð frá sjónarhóli atvinnurekandans verður skatturinn jafnvel enn hærri. Ef við skoðum hvað verður um krónurnar sem flæða frá atvinnurekandanum vegna launa sem renna í lífeyrissjóðakerfið og til ríkisins og síðan vegna tryggingagjaldsins þá eru skattarnir jafnvel enn þá hærri. Þetta fer að nálgast 70%. Það er orðið dýrt að ráða til sín fólk við þær aðstæður sem þessi ríkisstjórn er að skapa, enda kemur það manni ekkert á óvart að maður hittir annan hvern dag eða jafnvel oft í viku atvinnurekendur sem hafa verið að fara yfir sín plön t.d. fyrir næsta ár — ég hitti einn slíkan í gær sem sagði mér að hann sæti í stjórnum nokkurra félaga, þar væri verið að fara yfir áætlanir næsta árs og það blasti við að grípa þyrfti annaðhvort til töluvert mikilla launalækkana eða hreinlega uppsagna. Það blasir ekkert annað við, enda hefur hv. þm. Pétur H. Blöndal, sem situr fyrir framan mig, margoft bent á að tryggingagjaldið er ekki annað en skattur á það að ráða fólk í vinnu.

Við erum svo sem ekki beint að ræða tryggingagjaldið hér. Ég nefndi sérstaklega gallana á fjölþrepa skattkerfum. Í því sambandi er bent á Norðurlöndin sem fyrirmynd. Viljum við raunverulega nota Norðurlöndin sem fyrirmynd okkar skattkerfis? Er mönnum virkilega alvara með því að við viljum feta þá slóð sem Norðurlöndin hafa farið í sinni skattkerfisuppbyggingu? Ég veit ekki hvort við höfum tæmt þá umræðu á Alþingi eða hvort í umræðu um hið norræna skattkerfi hafi allt verið sagt í raun og veru.

Ég vil nefna sem dæmi nokkra hluti í hinu norræna skattkerfi sem ég kann ekki sérstaklega vel við. Skattur er tekinn miklu fyrr, þ.e. af miklu lægri launum. Frítekjumarkið er miklu lægra. Ríkisstjórn sem segist ætla að hlífa sérstaklega þeim sem lægst hafa launin getur varla viljað fara inn í hið norræna skattkerfi þar sem menn byrja að borga skatta miklu fyrr. Er það? Vilja menn auka svo við skattheimtuna hjá þeim sem hæst hafa launin að jaðarskattarnir sem ég minntist á áðan verði ekki bara 60% heldur jafnvel allt að 80%? Vilja menn raunverulega fara inn í slíkt skattkerfi? Ef við tökum bara þá einföldu staðreynd að Norðurlöndin eru með mestu skattbyrði í heiminum þá þurfum við kannski að eiga samtal við íslenskan almenning svona eins og fyrir einar kosningar áður en við færum okkar skattamódel yfir til þess þar sem skattbyrðin er hæst í heimi. Ég held að það væri ágætt að eiga samtal við þjóðina þó ekki væri nema eins og 6–8 vikur fyrir einar kosningar áður en menn leyfa sér að taka það upp sem sína stefnu inni á Alþingi.

Í umræðu annars vegar um okkar íslenska veruleika og hins vegar um hvernig umhorfs er í efnahagsmálum á Norðurlöndunum hefur verið nefnt að við viljum færast nær þeim vegna þess að þar sé landsframleiðslan svo há. Ég hef heyrt þetta nefnt í ræðustól Alþingis. Landsframleiðsla á Norðurlöndunum er ekki hærri en hér. Hún hefur lengi verið jafnhá hér og þar og oft og tíðum hærri hér en á flestum öðrum Norðurlöndum. Þetta segir mér að við höfum öll færi til að auka við lífskjörin þannig að þau verði í öllu tilliti sambærileg við það sem þar gildir. Það sem við stöndum hins vegar frammi fyrir í augnablikinu eru stórauknar skuldir hins opinbera og ekki síst ríkisins. Mér finnst mikilvægt að koma þessu að.

Mestu ósannindin við kynningu á þessu frumvarpi sem við ræðum eru samt annað mál og ég er varla búinn að koma inn á það enn þá. Það lýtur að persónuafslættinum. Menn hafa áttað sig á því hver á fætur öðrum undanfarna daga og vikur en við sjálfstæðismenn höfum bent á þetta frá upphafi: Ríkisstjórnin faldi þau áform sín í skattahækkunarmálum sínum að afnema vísitölutengingu persónuafsláttar og kynnti málið þannig að hér væri sérstaklega verið að hlífa láglaunafólki. Ég ætla að taka eitt fram. Við getum tekið umræðu um hvort ríkið hafi efni á því að láta persónuafslátt fylgja hækkunum á vísitölu neysluverðs, það er sérstök umræða, en það gengur ekki að ríkisstjórnin taki ákvörðun um að afnema þessa tengingu og kynni það síðan sem mál sem hlífi sérstaklega þeim sem lægst hafa launin. Það er ekkert annað en blekking sem fólk á ekki skilið við þær aðstæður sem nú eru.

Þær tekjuskattshækkanir sem við erum að ræða um eru sagðar eiga að skila ríkissjóði um það bil 10–12 milljörðum, þ.e. prósentuhækkunin í þessum hærri skattþrepum. 9–10 milljarðar eru einmitt hin aukna skattbyrði sem leiðir af afnámi vísitölutengingar persónuafsláttarins og það eru þessir 9–10 milljarðar í aukinni skattbyrði sem aldrei eru nefndir til sögunnar í umfjöllun á þinginu. Það er verið að leggja 9–10 milljarða á alla launamenn, alla þá sem hafa tekjuskattskyld laun. Allir þessir aðilar munu þurfa að borga hærra hlutfall launa sinna í skatt vegna þess að vísitölutenging hefur verið afnumin. Ég er því þeirrar skoðunar að heildaráhrifin af skattahækkunarpakka ríkisstjórnarinnar séu vanmetin um 10 milljarða eða um það bil 20% vegna þess að málið hefur verið kynnt þannig að það muni auka tekjur ríkisins um 44 milljarða eða þar um bil. Ég er þeirrar skoðunar að það sé að öllum líkindum ofmat vegna þeirra neikvæðu efnahagslegu áhrifa sem þessar skattahækkanir munu hafa, að þetta muni ekki á endanum skila sér í ríkiskassann.

Við erum þegar farin að sjá slíkt gerast, t.d. þegar ríkisendurskoðandi skilaði okkur skýrslu nú í haust og benti á að þær skattahækkanir sem ríkisstjórnin er þegar búin að ákveða og koma til framkvæmda um mitt ár skila ekki þeim tekjum sem menn voru búnir að reikna sér. Ég tel að það sama muni því miður gerast varðandi þau áform sem menn kynna hér til sögunnar og vilja lögleiða, þ.e. að þessar skattahækkanir muni ekki skila öllum þeim krónum sem að er stefnt. Eitt er þó alveg víst og það er að með því að láta ekki persónuafsláttinn fylgja verðlagi munu þessir 9–10 milljarðar örugglega sparast vegna þess að þar geta menn ekki gert neinar reikningsskekkjur. Þeir milljarðar munu allir skila sér vegna þess að það er tekið af hverjum einasta launaseðli í landinu. Það er von að heildarsamtök launþega í landinu stígi núna fram, þó nokkuð seint sé, og telji sig hafa verið svikin, að gerðir samningar hafi verið sviknir og menn hafi ekki sagt satt og rétt frá þegar skattapakki ríkisstjórnarinnar var kynntur. Allt á þetta að vera okkur mikið áhyggjuefni.

Ég hef ekki einu sinni nefnt hvað flækjustigið kemur til með að vaxa mikið og hve mikið við munum að nýju finna fyrir eftirágreiddum sköttum. Fólk mun í auknum mæli fá gíróseðil frá ríkinu 1. ágúst í staðinn fyrir tékka. Ríkisstjórnin telur greinilega að eftirágreiddir skattar séu ásættanlegir því þetta er bein afleiðing af þessum aðgerðum. Eftirágreiddir skattar, nota bene, innheimtast verr en staðgreiðsluskattar. Þannig er það bara. Flóknara og ógagnsærra skattkerfi er það sem ríkisstjórnin býður upp á og sorglegast af öllu er (Forseti hringir.) að til er önnur leið og það er sú leið sem við höfum kynnt til sögunnar. Það væri betra að fara þá leið, (Forseti hringir.) miklu betra fyrir láglaunafólk og alla aðra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)