138. löggjafarþing — 58. fundur,  21. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þó svo að farið verði yfir hlutina þegar búið er að taka þá ákvörðun að skerða þessar stofnanir og það kemur í ljós að þeir sem gagnrýndu þetta höfðu rétt fyrir sér, þá kannast ég því miður við þann svip af ríkisvaldinu að það hafi yfirleitt gengið illa að ná til baka fjármunum sem einhvern tíma hafa verið teknir, það hefur tekið mánuði og jafnvel ár að fá leiðréttingu ef hún næst.

Varðandi þessar stofnanir þá er búið að kalla eftir því mánuðum saman að sest verði yfir þetta og samanburðurinn leiðréttur, því að eins og sá samningur lítur út sem ég hef a.m.k. séð er verið að bera saman t.d. heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi, Suðurnesjum og í Skagafirði og þetta eru gjörólíkar stofnanir, allt, allt öðruvísi uppbyggðar og innbyrðis. Það verður að horfa á þessa hluti þegar verið er að gera svona samanburð.

Ég verð að segja það, hv. þingmaður, að mér þykir mjög miður að við skulum vera komin á þennan stað í þessari umræðu, að vera að ljúka fjárlögum og með þennan mikla niðurskurð á þeim stofnunum sem hér hafa verið nefndar inni í frumvarpinu enn þá. Að mínu viti er búið að sýna fram á að þær geta ekki tekið þessum niðurskurði nema að skerða verulega þá þjónustu sem veitt í dag. Þessarar ríkisstjórnar og ráðherra verður því minnst fyrir það á þessum stöðum, á þessum tveim stofnunum, hjá starfsfólki og þjónustunotendum, að vera sá aðili sem skerti þá þjónustu sem þarna er veitt með því að gera extra miklar kröfur til þeirra. Ég veit að þeir sem þarna hafa starfað hafa boðist til að sýna fram á tillögur að sparnaði. Sveitarfélögin hafa jafnvel boðist til að taka þessar stofnanir yfir ef það yrði til þess að verja þær. Því hefur reyndar ekki verið svarað.