138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ítreka þá fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. forseta áðan: Til hvaða samkomulags um tilhögun umræðunnar er hér vísað? Ég þekki ekki það samkomulag. Þetta kemur í framhaldi af ýmsum misvísandi skilaboðum sem borist hafa frá ríkisstjórninni, meira að segja yfir jóladagana. Það var ekki einu sinni friður fyrir ríkisstjórnarspunanum yfir jóladagana því að á annan í jólum birtust fréttir þess efnis að lögfræðiálit Mishcon de Reya hefði verið birt að kröfu stjórnarandstöðunnar þó að augljóslega sé það mál eins og önnur sem til fjárlaganefndar koma opinbert plagg á meðan ekki er tekin ákvörðun um annað. Ég tel að það hafi verið sameiginlegur skilningur nefndarmanna í fjárlaganefnd að birta það plagg, enda sjálfsagt mál.

Ég ítreka fyrri spurningu, frú forseti: Til hvaða samkomulags er verið að vísa?