138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í einni af þeim fáu ræðum sem ég hef haldið um þetta mál fór ég sérstaklega í gegnum tilskipun Evrópusambandsins og hvernig hún væri uppbyggð. Hún gengur út á það að tryggja hverjum innstæðueiganda allt að 20.000 ECU eða 20.887 evrur (Gripið fram í.) — það er kannski meginmálið í þessu, en ekkert um fram það.

Íslendingar voru sem betur fer búnir að setja slíkt kerfi upp, eins og ég las upp áðan, og voru búnir að láta greiða inn í það án þess að mótmæli kæmu frá Evrópusambandinu þannig að þetta kerfi átti að standa undir sér. Ef menn lesa tilskipunina nákvæmlega er nánast bannað að veita ríkisábyrgð á þennan sjóð til að mismuna ekki og til að skekkja ekki samkeppni í Evrópusambandinu. Það er einmitt það sem fjármálaráðherra Hollands getur um í þessari ágætu ræðu sem hann hélt hjá félagi fjárfesta í Evrópu — sem ég mun þá senda þingheimi á eftir af því að menn eru að efast um það, það var 3. mars. Hann segir að þetta kerfi virki ekki við hrun, það gangi ekki, þegar hrun verður í einhverju landi þá geti þetta kerfi ekki staðið undir sér, þá geti það ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Ég held að ef til dómsmáls kæmi hér á Íslandi og þegar dómarar á Íslandi færu að skoða þessa reglugerð, sem þeir eflaust hafa gert, muni þeir komast að þeirri niðurstöðu að við eigum ekki að borga neitt, að íslenska ríkið eigi ekki að borga neitt. Þetta er það sem Bretar eru hræddir við og Hollendingar og ekki bara þeir heldur allt Evrópusambandið. Af hverju er Evrópusambandið hrætt við þetta? Vegna þess að það mundi gefa signal út í Evrópu, til allra litlu sparifjáreigendanna um alla Evrópu, að þetta innlánstryggingarkerfi heldur ekki. Það getur orðið áhlaup á bankana, kannski síður núna, en síðasta haust var þetta raunverulega hætta sem vofði yfir evrópsku bankakerfi og það skýrir óskaplega hörku Evrópusambandsins gagnvart Íslandi og meira að segja Norðurlandaþjóðanna.