138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:54]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég fór ítarlega yfir í ræðu minni hér áðan er meginhugsunin í breytingartillögum Hreyfingarinnar í takti við í raunveruleikann í dag. Það er ekki allt í frumvarpinu sem við fjöllum um nú, sumt er löngu farið í gegn í öðru frumvarpi, í frumvarpi um rannsóknarnefndina og lögum um hana.

Ég lýsti því hér áðan hvert hlutverk rannsóknarnefndarinnar væri. Hennar hlutverk er það sama og hlutverk fimm manna nefndarinnar sem Hreyfingin leggur til, það er löngu farið í gegnum þingið. Hreyfingin leggur síðan til sex manna þingmannanefnd til að taka við pakkanum, við rannsóknarskýrslunni. Aðrir flokkar leggja til níu manna þingmannanefnd, það er í frumvarpinu sem við fjöllum um hér. Hreyfingin er því ekki með neitt nýtt, þetta er allt í ferli og verið er að vanda til verka.

Þegar hv. þm. Þór Saari kemur hér upp og segir: Ja, ég var nú ekki að segja þetta og hitt, ég heyrði það bara úti í bæ, lætur þingmaðurinn samt orð sín falla úr ræðustól Alþingis og undir því er ekki hægt að sitja. Sú sem hér stendur situr ekki undir því að sagt sé að það frumvarp sem við fjöllum um sé einhvers konar samtryggingarkerfi þingmanna um að gera ekki neitt. Það er rangt. Að það eigi að sópa einhverjum skýrslum, m.a. skýrslunni stóru, undir teppið — það er rangt. Og að það eigi að skila einhverri froðu um verslunarmannahelgina er líka rangt. Það verður ekki setið undir þessum málflutningi, hann er að mínu mati, miðað við þann málflutning sem hér hefur verið í dag, (Forseti hringir.) einungis til þess fallinn að skapa Hreyfingunni sérstöðu til að klifra upp bakið á öðrum flokkum.