138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:16]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hjá fleiri en einum sjálfstæðismanni í dag að þeir eru ekki spenntir fyrir því að fara dómstólaleiðina, eins og formaður þeirra mælti nú fyrir í þingsal fyrr á þessu ári. Dómstólaleiðin er sem sagt ekki sú besta í dag. Nú vilja menn freista þess að ná betri samningi sem er alls óvíst að takist. Í umræðum undanfarinna vikna um skattana var hv. þingmanni tíðrætt um mikilvægi þess að breikka skattstofnana. Frekar en ganga harðar að einstaklingum og fyrirtækjum væri mikilvægt að breikka skattstofnana. Ég held að það væri betra ef sjálfstæðismenn heilt yfir gættu samræmis í málflutningi sínum því innspýting erlendrar fjárfestingar, erlend fjármögnun hingað inn í atvinnulíf okkar á nýju ári 2010, er besta leiðin okkar til að breikka skattstofnana. Frekar vil ég fara þá leið en óvissu- og kreppuferð Sjálfstæðisflokksins.