138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:37]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega var þetta mjög óvanaleg aðferð. Samningarnir voru líka mjög óvanalegir og þannig úr garði gerðir að það var ekki pólitískur meiri hluti fyrir þeim á Alþingi. Þess vegna var farið í þessa vinnu, þess vegna sköpuðust forsendur til þess að stjórnarandstaða lögðu saman krafta sína til að reyna að búa til skilyrði, einhverjar forsendur sem hægt væri að una við en það þýddi auðvitað að þetta var lægsti mögulegi nefnarinn, þetta var lægsti mögulegi samningurinn sem menn gátu komist að og þess vegna voru auðvitað ekki nein efni til þess að fara síðan að semja við Breta og Hollendinga um útfærslu á þessu máli eða neinn afslátt a.m.k.

En ég vil ítreka það sem ég spurði um áðan varðandi tillögu bresku lögfræðistofunnar um að menn tækju upp samninga að nýju við Breta og Hollendinga í ljósi þess að þessi samningur var ekki skýr, hann var ekki sanngjarn og það megi færa fyrir því rök að við séum ekki í færum til að standa undir honum vegna þess að áhrifin af samningnum væru þau að við ættum erfiðara með að standa undir öðrum skuldbindingum og það muni hafa áhrif (Forseti hringir.) á möguleika okkar til að standa undir þeim þörfum sem íslenska þjóðin kallar eftir.