138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að þau séu fá dæmin í þingsögunni sem hefur tekist svo óhönduglega til með eins og það mál sem við ræðum hér og ég held að sagan eigi eftir að sanna það svo ekki verði um villst. Það var samdóma álit okkar við hrunið að nauðsynlegt væri að skipa rannsóknarnefnd til að fara yfir aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna og þar skyldi ekkert undan skilið í þeirri rannsókn. Skipuð var rannsóknarnefnd einstaklinga sem taldir voru hafnir yfir allan vafa. Þeim var einnig gefið það víðtækasta umboð sem slíkri rannsóknarnefnd hefur verið veitt hérlendis.

Um þetta var mikil samstaða á þinginu og það má segja að afgreiðslan í dag um þingnefndina sem á að taka við gögnum og vinna úr þeim gögnum sem koma frá rannsóknarnefndinni sýni þá samstöðu sem er um þessa eðlilegu kröfu samfélagsins. Í ljósi þess djúpstæða ágreinings sem er meðal meirihlutaflokkanna og þjóðarinnar og þingsins í þessu máli um það hvernig staðið hefur verið að viðreisnarferlinu, er full ástæða til að framlengja líf þessarar rannsóknarnefndar og gefa henni sama umboð til að gera ítarlega úttekt á þeirri vinnu sem hefur farið fram af hálfu ríkisvaldsins á þessu ári.

Engum blöðum er um það að fletta að ábyrgð þeirra sem stóðu í brúnni í aðdraganda falls bankanna og við fall þeirra er mikil. Í því samhengi er mikilvægt að við minnumst þeirra aðstæðna sem þá voru uppi hér á landi og ekki síður innan Evrópusambandsins og reyndar kannski víðar um heim. Það er gott að rifja þetta upp og í því tilefni vitna ég í yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem var gefin út í desember 2009 en hún ber gott vitni um þetta. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Eftir setningu neyðarlaganna urðu fjöldamótmæli við sendiráð Íslands og banka í Hollandi, Lúxemborg, Þýskalandi og víðar þar sem þúsundir einstaklinga misstu aðganginn að sparifé sínu. Bankahrunið á Íslandi varð m.a. af þessum ástæðum að helsta fréttamáli Evrópu í byrjun október og tugir fjölmiðlamanna þyrptust til landsins sem og fulltrúar breskra og hollenskra stjórnvalda sem kröfðust þess að þegar í stað yrði samið um ábyrgðir íslenskra stjórnvalda á innstæðum í útibúum íslenskra banka. Það var við þessar aðstæður sem þáverandi fjármálaráðherra undirritaði viljayfirlýsingu (MoU) við Hollendinga 11. október sem aldrei varð þó að veruleika vegna þess að efnisatriði voru algerlega óviðunandi.“

Það er enginn vafi í mínum huga að ef menn gætu spólað til baka vildu þeir hafa gert eitthvað með öðrum hætti en gert var alveg eins og ég er klár á því að hæstv. fjármálaráðherra vildi gjarnan hafa fjallað af meiri ábyrgð um þessi mál en hann gerði á sínum tíma. Hann viðurkennir í dag að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því hvernig aðstæður voru og ég hef fullan skilning á þeim þætti málsins. En ábyrgð þeirra sem tóku við þann 1. febrúar sl. og hafa alla ábyrgð á viðreisnarferlinu er ekki minni en hinna sem áður sátu. Í ljósi áðurnefnds ágreinings er nauðsynlegt að framlengja starf rannsóknarnefndarinnar. Það er eðlilegt framhald af þeirra störfum að þau vinni áfram með málið.

Það alvarlegasta við þetta mál er sú staðreynd að lítil eða engin samstaða hefur náðst um markmið eða vinnubrögð. Svo fámenn þjóð sem við erum hefur ekki efni á því að vera liðskipt þegar staðið er frammi fyrir svo alvarlegu máli. Önnur og ekki síður alvarleg hlið málsins er sú að frá byrjun hafa forustumenn ríkisstjórnarinnar farið með rangt mál og haldið frá upplýsingum sem mikilvægar eru öllum þeim sem um málið þurfa að fjalla. Skýr dæmi um þetta hafa verið að koma fram, í raun allt málsferlið og nú síðast upplýsingar sem lagðar voru fram í gær eftir að ábendingar höfðu komið fram frá lögmannsstofunni Mishcon de Reya og enn bíða fulltrúar okkar í fjárlaganefnd eftir frekari upplýsingum sem enn hafa ekki borist.

Mistök ríkisstjórnarinnar í þessum efnum eiga vafalaust að nokkru skýringu sína að sækja til hennar eigin ágreinings og þess ágreinings sem er innan stjórnarflokkanna um þetta mál. Hann er djúpstæður eins og fram hefur komið. Það er með ólíkindum hvað forustumenn ríkisstjórnarinnar og formaður samninganefndarinnar hafa komist upp með í málflutningi sínum án þess að t.d. fjölmiðlar hafi gert því skilmerkilega skil. Í þeim efnum er margt hægt að rifja upp eins og þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði hæstv. fjármálaráðherra þann 3. júní um stöðuna í samningaviðræðunum, um hvort til stæði að undirrita samkomulag við bresk stjórnvöld daginn eftir eða næstu daga. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði með slíkum ótrúverðugleika sem síðan hefur einkennt málið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Eins og þingmönnum er kunnugt var afgreidd ályktun um það [þ.e. Brussel-viðmiðin] á þingi þar sem stjórnvöldum var falið það verkefni að ræða við bresk og hollensk stjórnvöld um lyktir þessarar deilu og síðan hefur með reglubundnum hætti verið skýrt frá því hvað aðhafst hefur verið í þeim efnum og m.a. utanríkismálanefnd verið haldið upplýstri um það. Viðræður eða þreifingar milli aðila hafa gengið hægar en ætlunin var, m.a. vegna þess að Bretar hafa ítrekað óskað eftir frestun á fundum sem fyrirhugaðir voru. Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála.“

Tveim dögum síðar var kynntur samningur til undirritunar, undirritaður án þess að vissa væri fyrir um þingmeirihluta og varð til þess reyndar að einn ráðherra sá ástæðu til að segja af sér embætti. Það eru einnig áhugaverð ummæli formanns samninganefndarinnar þegar hann sagði að ef reikningar hefðu ekki verið greiddir upp hefði allt innstæðutryggingarkerfi Evrópu hugsanlega hrunið. „Við erum í rauninni að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist“, sagði Svavar Gestsson, formaður samninganefndarinnar. Á hvaða vegferð voru menn eiginlega, virðulegi forseti, farnir er að líkja sjálfum sér við Jesúm Krist. Þetta segir meira en mörg orð. Síðan hafa hótanirnar gengið, hótanir um að ef ekki yrði gengið frá þessum samningum yrði ekki hægt að hefja endurreisn bankakerfisins, það yrði ekki hægt að halda áfram þeirri vinnu sem var með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og norrænu lánin kæmu ekki til greiðslu. Að öllu þessu sögðu, sem ekkert hefur gengið eftir, er það líf ríkisstjórnarinnar sem lagt var að veði og það var ekki krafa stjórnarandstöðunnar að líf ríkisstjórnarinnar hafi verið lagt að veði heldur er það forsætisráðherrann sjálfur sem hefur sett lífið að veði.

Menn höfðu ætlað að nóg væri komið af öllu þessu. Svo er þó ekki að sjá. Við sjálfstæðismenn ásamt öðrum stjórnarandstöðuflokkum höfum varað við þessum vinnubrögðum. Við höfum viljað gera allt sem við megnum til að sjá þessu máli farborða, hvað sem öllum ágreiningi í sjálfu sér líður. En við höfum ætlast til meiri einlægni og samstarfsvilja, bæði innan ríkisstjórnarinnar og milli hennar og stjórnarandstöðunnar. Þetta mál er sannarlega svo mikilvægt að öll önnur sjónarmið ætti að setja til hliðar til að vinna því sigur fyrir íslenska þjóð. Hin málefnalegu öfl þingsins höfðu styrk til að leggja í mikla vinnu í sumar við að lagfæra þann samning sem fyrir lá. Með samstöðu nokkurra þingmanna Vinstri grænna tókst að gera umbætur á mögulegri ríkisábyrgð þannig að breið sátt náðist um það í þinginu. Þetta gaf vissulega vonir um framhaldið, vissulega vonir um að við værum að ná samstöðu sem væri svo mikilvæg í þessu máli þar sem við værum sem eitt lið að berjast fyrir hagsmunum íslenskrar þjóðar og gæta okkar á þeim fórnum sem verið er að færa. En aftur brást ríkisstjórnin og henni hefur nú tekist að kljúfa þingið, kljúfa þá samstöðu sem náðist og kljúfa þjóðina. Þá er aftur gripið til gamalkunnra ráða, innihaldslausra hótana, og nú getur hæstv. fjármálaráðherra ekki gefið sannfærandi skýringar. Nú hafa þær skýringar sem áður lágu í hótununum runnið og nú eru skýringarnar lítt sannfærandi.

Sannfæring meirihlutaflokkanna er lítil í þessu máli. Það finnur maður þegar rætt er við þingmenn flokkanna á göngunum að það er ákveðinn hópur sem hefur litla sannfæringu fyrir því að þessa leið verði að fara. En það er líka stór hópur þingmanna sem er að greiða þessu máli lið með bundið fyrir augun og hefur litla sannfæringu í málinu.

Þegar farið er yfir þær forsendur sem lágu til grundvallar stöndum við frammi fyrir mögulegum skelfilegum aðstæðum í samfélagi okkar. Yfir það hefur verið farið ítarlega í ræðum og ég sé ekki ástæðu til að rekja það. En eitt af því sem helst hefur verið nefnt af hálfu ríkisstjórnarflokkanna er að menn hafi gengið að þessum samningum með bundnar hendur af yfirlýsingu fyrri ríkisstjórnar. Vissulega var margt sagt og eitthvað undirritað en það hefur ítarlega komið fram að ekkert af því hefur bundið okkur í þeim samningaviðræðum sem fram fara og það er mikil sögufölsun þegar reynt er að halda því fram að menn hafi viljað fara samningaleiðina og ekki láta reyna á dómstólaleiðina. Það var auðvitað þannig og hefur alltaf verið skýr stefna okkar að ef eðlilegir og sanngjarnir samningar væru ekki í höfn í þessu máli væri dómstólaleiðin sú leið sem yrði að láta reyna á.

Aftur er hægt að taka hatt sinn ofan fyrir fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, í þeirri yfirlýsingu sem hún hefur gefið, í þeirri lexíu sem hún er að reyna að kenna sínum fyrrum þingliðum, þeim flokki sem hún stýrði, þegar hún fer yfir þau viðmið sem umsamið var að farið yrði eftir í samningaviðræðum og það hvernig samningaviðræðurnar núllstilltust við þessar aðstæður. Ég vildi að það væri meiri sannfæring í þingmönnum Samfylkingarinnar að hlusta á þennan málflutning og breyta í samræmi við þau sjónarmið sem þar koma fram. Það er tekinn af allur vafi í hennar huga, eins og okkar svo margra, að við höfum ekki verið bundin af neinu sem gert var hér í október og nóvember í fyrra og ég lýsti áðan þeim aðstæðum sem þá voru uppi í samfélaginu og þeim aðstæðum sem þá voru uppi í Evrópu og því að við höfðum örugglega viljað gera eitthvað öðruvísi. En það er ekki með nokkru móti hægt að segja að hendur okkar hafi verið bundnar af því sem þá var gert. Vilji okkar hefur alltaf legið til þess að leita pólitískra lausna í þessu máli en ekki þannig að við værum ofurseld óvissunni inn í langa framtíð.

Alþingi hefur fjallað ítarlega um þetta mál og í tvígang hefur vilji þess í raun verið brotinn af hæstv. ríkisstjórn. Það eru meirihlutaflokkarnir sem á endanum munu bera ábyrgð í þessu máli. Það eru þeir sem bera ábyrgð í þessu máli pólitískt, en það er auðvitað þjóðin sem ber ábyrgðina á því að þurfa að greiða þetta og standa undir þeim skelfilegu skuldbindingum sem hér er verið að leiða yfir okkur. Það hefur ítrekað komið fram hjá svo fjölmörgum aðilum að óvissan er í raun yfirþyrmandi í þessu máli. Geta okkar til að greiða á sama tíma og sú atvinnustefna sem rekin er af hálfu núverandi ríkisstjórnar verður alls ekki hægt að segja að sé hvatning til að auka verðmætasköpun og útflutning í landinu. Með hverju ætlum við þá að greiða? Við þurfum að afla erlends gjaldeyris til að greiða götu þessa máls, til að geta greitt fyrir þessar skuldbindingar. En við þurfum líka að greiða fyrir allt endurreisnarstarfið, alla þá uppbyggingu sem þarf að fara fram. Það er alveg með ólíkindum að menn skuli vera tilbúnir til að taka þessa miklu áhættu og án þess að reyna að ná breiðari samstöðu í þinginu og í þjóðfélaginu þar sem miklu meiri sátt væri hægt að ná um þetta mál og þær leiðir sem verða farnar.

Verið er að fara með þetta mál í gegnum þingið, virðulegi forseti, með algerum lágmarksmeirihluta. Áhöld eru um það hvort ríkisstjórnin muni gera þetta með eins eða tveggja atkvæða meiri hluta. Ég vona að menn sjái að sér. Það er enn tækifæri til þess og ég vona að það gerist. Það er sannarlega verið að ræða um velferð íslensku þjóðarinnar og henni munum við sjálfstæðismenn ekki bregðast. Við munum ekki bregðast þjóðinni í þessu máli, við munum að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn þessu. Ég er í raun, virðulegi forseti, klumsa yfir vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans á þingi.