138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:45]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir hans skemmtilegu ræðu hér áðan. Ég neita því ekki að mér finnst oft gaman að hlusta á hann flytja ræður úr þessum stól þó að ég sé sjaldan sammála því sem hann segir eða geti tekið undir þau málefni sem hann flytur, í það minnsta í þessu máli.

Mig langaði að nefna nokkur atriði. Undir lok ræðu sinnar nefndi hv. þingmaður að stjórnarþingmenn hefðu talað fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga í þessu máli. Virðulegi forseti, það er varla hægt að ganga lengra í að brigsla mönnum um svik við land sitt og þjóð en að saka þá um að ganga erinda annarra þjóða og verja ekki hagsmuni sinnar eigin þjóðar. Mig langar til að spyrja hv. þm. Höskuld Þórhallsson hvort það megi lesa úr orðum hans, sem voru þessi nánast óbreytt: Stjórnarþingmenn hafa talað fyrir hagsmunum Breta og Hollendinga í þessu máli — hvort hann sé með því að saka stjórnarþingmenn alla, og ef ekki alla þá hvaða stjórnarþingmenn, ráðherra eða ákveðna stjórnarþingmenn um að þeir séu að svíkja land sitt og þjóð með framgöngu sinni í þessu máli. Er hann að brigsla mönnum um landráð?