138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var einmitt að upplýsa um að ég hafði nákvæmlega sömu væntingar og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, að þeir hefðu gögn sem skiptu máli og gætu bent mér á þau. Þess vegna hringdi ég og talaði við þá í gegnum Sigrúnu Brynju Einarsdóttur sem er forstöðumaður nefndasviðs. Það eru gríðarleg vonbrigði að þeir hafi ekki þessi gögn eftir að hafa fengið ábendingu um það frá viðkomandi aðilum, sem þeir og staðfestu í síma. Þeir staðfestu líka að þeir hefðu ekki þessi gögn. (Gripið fram í.) Þeir sendu það af því að við báðum um að þeir leituðu í gögnunum. Það er algjörlega búið að snúa hlutunum á haus.

Varðandi það að vitna í Mishcon de Reya hef ég bent á það áður og það hefur komið fram í ræðum hjá fjöldamörgum aðilum að það er full ástæða til þess að menn skoði álitið, allar 86 blaðsíðurnar. Eitt af því sem þeir vara við er áhættan af því að treysta á dómstólaleið eða að fresta málinu. Þeir taka það líka fram að það er fyrst og fremst Alþingi sem verður að velja og hafna, það eru valkostir í stöðunni. (Gripið fram í.) Þeir stinga upp á frestun og bjóðast til að taka að sér málið. (Forseti hringir.) Það er einn möguleiki en þeir benda líka á ýmsa aðra möguleika og þeir segja: Það er þingið sem ákveður það og það er það sem ég vil að verði gert.