138. löggjafarþing — 65. fundur,  30. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hóf þessa vegferð með leynipukri þegar ekki var ætlunin að sýna þingi eða þjóð Icesave-samninginn illræmda. Nú skiljum við ástæðurnar, samningurinn þolir illa dagsljósið. Nú lýkur ríkisstjórnin þessu baráttumáli sínu með sams konar leynibralli og hún hóf það á. Þetta er afleitur samningur sem mun leggja þungar byrðar á almenning. Hann mun ekki auðvelda okkur efnahagslega viðreisn, heldur tefja hana. Eða trúir því einhver að án þessa nauðungarsamnings renni hér upp efnahagsleg ísöld eins og sumir talsmenn Samfylkingarinnar hafa sagt?

Á Icesave-samningnum ber ríkisstjórnin ábyrgð og það þýðir ekkert fyrir talsmenn hennar að reyna stöðugt að varpa þeirri ábyrgð af herðum sér. Það eru þjóðarhagsmunir að fella þessa samninga. Ég hafna þessum óþurftarsamningum og segi því nei.