138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

dagskrá fundarins.

[15:06]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það er ársafmæli og það er viðeigandi að þess sé í nokkru minnst. Ætli sú dagskrá sem liggur fyrir þinginu í dag sé ekki nokkuð lýsandi fyrir störf þessarar ríkisstjórnar? Það stóð reyndar til, frú forseti, að hér yrði rætt um efnahagsmál utan dagskrár en vegna anna forsætisráðherrans við önnur störf er ekki hægt að koma þeirri dagskrá við, því miður. Ég verð að segja eins og er að ríkisstjórn sem helst hefur lagt það fram í efnahagsmálum að skapa sundrungu, óeiningu og upplausnarástand í sjávarútvegsmálum — forustumenn hennar hafa látið þannig orð falla um skattamál sem eru til þess fallin að snarauka og stórauka á alla óvissu um skattamál hjá bæði viðskiptalífi og almenningi — er ekki ríkisstjórn sem stendur sig í stjórn efnahagsmála á jafnmikilvægum tímum og nú eru.

Því segi ég þetta, frú forseti, að sú dagskrá sem liggur fyrir þinginu á þessum afmælisdegi ríkisstjórnarinnar er ágætur vitnisburður og minnisvarði um það fyrsta ár sem liðið er (Forseti hringir.) í sögu þessarar ríkisstjórnar.