138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar sem svaraði þó ekki þeirri spurningu sem ég beindi til ráðherrans um hvaða stefnu ríkisstjórnin hefði í heilbrigðismálum.

En varðandi þau ummæli sem höfð voru eftir mér í viðtali í morgun þá er það rétt að mér láðist að bæta við orðunum „um helgar“ en ég vil þó við það bæta að nú þegar er, vegna mikils skorts á læknum, biðtími sjúklinga í Reykjanesbæ og á Suðurnesjunum mjög mikill. Þegar búið er að taka af þá kvöldþjónustu sem boðað er núna má með sanni segja að verið sé að flytja heilbrigðisþjónustu að miklu leyti frá því svæði annað. Það var það sem ég var að vekja athygli á í viðtalinu, þ.e. að ég spurði að því hvort Landspítali – háskólasjúkrahús væri í stakk búið til að taka við öllum þeim fjölda. Ég vil þá beina þeirri fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra varðandi það (Forseti hringir.) að sveitarfélögin á svæðinu taki yfir þessa þjónustu vegna þess að þau telja sig vera betur í stakk búin að vita hverjar þarfir samfélagsins eru. Og þarna liggur ónýtt fjárfesting, skurðstofur, sem ríkisstjórnin hefur beinlínis (Forseti hringir.) komið í veg fyrir að væri hægt að nýta.