138. löggjafarþing — 71. fundur,  1. feb. 2010.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[15:37]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mun vonandi fá tækifæri til að fara yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum í utandagskrárumræðu sem farið hefur verið fram á að verði um heilbrigðismál og sérstaklega um heilbrigðismál á Suðurnesjum og mér var kynnt áðan. En stefnan er fyrst og fremst sú að efla heilsugæsluna, að styrkja heilsugæsluþjónustuna og verður að segjast eins og er að þar er mikið verk að vinna einmitt á Suðurnesjum, þar sem ættu að réttu að vera starfandi 17 heilsugæslulæknar en eru sex. En þó var bætt í á þessu ári 15 millj. kr. til að reyna að fjölga fólki. Það hefur ekki tekist að ráða menn til starfa við heilsugæsluna, því miður. Það hefur kostað gríðarlega miklar bónus- og aukagreiðslur sem nema held ég 80 millj. kr. á þessa sex lækna á síðasta ári. Það er ýmislegt sem þarf að skoða þarna í skipulaginu.

Ég vil segja nei, það er ekki hægt að flytja alla þessa þjónustu og það á ekki að flytja heilsugæsluþjónustu til Landspítalans (Forseti hringir.) og ef sveitarfélögin á Suðurnesjum eru tilbúin til að taka eitthvað af þeirri starfsemi yfir munu þau væntanlega óska eftir því formlega við heilbrigðisráðuneytið og þá verður við því brugðist.