138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

fjárhagsvandi sveitarfélaga.

[10:58]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Aðeins vegna þess sem hér kemur fram og hv. þingmaður hnykkir á varðandi hugsanlega sameiningu, ítreka ég það sem ég hef sagt að engar ákvarðanir liggja fyrir um það.

Það skal líka sagt hér, virðulegi forseti, að það er ekkert sveitarfélag á Íslandi í jafnalvarlegri stöðu og sveitarfélagið Álftanes, það verður að hafa í huga. Hv. þingmaður gat um þann fjölda sveitarfélaga sem fékk bréf frá eftirlitsnefndinni og það er rétt, þau hafa öll svarað eftirlitsnefndinni og sum hafa fengið bréf í framhaldi af því. Væntanlegt er líka frá mér frumvarp um ákveðna þætti í fjárhaldskafla sveitarstjórnarlaganna sem við viljum hnykkja á sem allra fyrst, sem er nauðsynlegt í því ástandi sem nú er og snýr að upplýsingaskyldu sveitarfélaga til ráðuneytisins til að betur sé hægt að fylgjast með.

Þetta teljum við nauðsynlegt að gera, virðulegi forseti, þrátt fyrir að heildarendurskoðun standi yfir á sveitarstjórnarlögunum. Við teljum okkur samt sem áður þurfa að koma með það til Alþingis og þá verður það Alþingis að athuga það hvort það vilji (Forseti hringir.) samþykkja það strax eða bíða heildarendurskoðunar.