138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[14:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans þó að við séum nú ósammála um flest atriði sem viðvíkja því máli sem hér er fyrir og við stefnum að því að festa í lög á þessu þingi.

Ég vil inna hv. þingmann eftir afstöðu hans til þeirra hugmynda sem starfsfélagi okkar, hv. þm. Pétur Blöndal, hefur kynnt hér fyrr í umræðunni um að unnt væri að innkalla aflaheimildirnar á 25 ára tímabili, 4% á ári frá útgerðinni, dreifa þeim síðan með tilteknum hætti sem þingmaðurinn mælti fyrir. Mig langar að vita hvort hv. þingmaður líti svo á að það sé hóflegar farið heldur en ríkisstjórnin hyggst gera í stefnuyfirlýsingu sinni, þ.e. að innkalla þetta á 20 árum, og hvort það væri skref sem hann væri frekar tilbúinn til þess að taka í endurskipulagningunni á þessari atvinnugrein.