138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

305. mál
[18:06]
Horfa

Flm. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessum viðbrögðum hjá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni. Mér var reyndar ekki kunnugt um að þetta hefði verið flutt áður en harma að sjálfsögðu að það frumvarp á sínum tíma hafi fengið þau örlög sem það átti sannarlega ekki skilið. Þá værum við kannski í öðrum sporum í dag.

Eftir að hv. þingmaður fór yfir það hverjir fluttu málið og að það sé svona í þessum anda þá geri ég mér miklar vonir um að það nái fram að ganga vegna þess að hann nefndi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hann nefndi hv. þm. Atla Gíslason, sem er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, og eins hefur hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, varaformaður nefndarinnar, tekið mjög vel í þetta mál.

Ég geri mér því miklar vonir um að málið njóti þess fylgis sem það sannarlega þarf til þess einmitt að við náum að nýta okkur þá reynslu og þá þekkingu sem við höfum á miðunum og eins þegar til framtíðar er litið, eins og ég kom að í máli mínu, að þetta mun geta nýst vísindasamfélaginu í heild sinni. Ég held að það væri mjög áhugavert, eins og ég nefndi í ræðu minni, að t.d. Háskólasetri Vestfjarða sem hefur ákveðna sérþekkingu á þessu svæði verði falið að halda utan um starf nefndarinnar, nota þau gögn og miðla þeim til annarra.

Ég skynja það hér í þessari umræðu að málið hlýtur góðar móttökur og fagna því sérstaklega.