138. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:52]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sjávarútvegsstefna Vinstri grænna, Hafið bláa, er glæsilegur bæklingur. Að gefnu tilefni skal ég koma bæklingi til hv. þingmanns. Ég tek fram að það kemur fljótt fram við lestur þess bæklings að þau upplegg sem LÍÚ og Deloitte eru að fást við eru ekki samkvæmt þeim forsendum, svo ég segi ekki mikið meira um það. Forsendur Deloittes byggja ekki á þeim forsendum sem þar eru lagðar upp.

Svo kemur að skötuselsfrumvarpinu, 80% yfir. Ég ítreka að það er heimild til að fara í allt 2.000 tonn, það var úthlutað 2.500 tonnum. Það er sama og veitt var á síðasta ári. Það er almennt álit allra að skötuselsstofninn standi afar vel. Það hefur verið mikil og góð nýliðun í stofninum allt frá árinu 2001. Það er mat þeirra sérfræðinga sem ég hef talað við að það hafi verið óþarfi að setja þennan stofn í kvóta, það hefði verið hægt að beita öðrum fiskveiðistjórnaraðferðum sem eru til. Það eru miklu fleiri fiskveiðistjórnaraðferðir til en bara kvótinn einn, það eru veiðarfæri, slóðir, bannsvæði, takmarkanir á dögum og þar fram eftir götunum.

Síðan stendur skýrt í áliti meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að fullt samráð verði haft við Hafrannsóknastofnun ef þessi heimild, allt að 2.000 tonnum, verður nýtt eða hluti af henni.