138. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2010.

lágmarksbirgðir dýralyfja.

183. mál
[15:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar minnar er að í lok október sl. kom upp heiftarleg lungnasýking í minkabúinu á Syðra-Skörðugili í Skagafirði. Á þessu búi, sem er eitt hið stærsta í landinu, voru 14.000 minkar og sjúkdómurinn varð á fjórða þúsund dýrum að fjörtjóni. Sjúkdómsins varð líka vart víðar í Skagafirði, svo sem á búinu á Ingveldarstöðum en þar varð tjónið ekki eins mikið.

Þetta er kannski þeim mun alvarlegra í ljósi þess að þeir Skörðugilsmenn höfðu nýlega stækkað mjög búið sitt, byggt upp gríðarlega myndarlega aðstöðu og eflt búið. Eins og við vitum hefur komið í ljós upp á síðkastið að menn binda núna miklar vonir við loðdýraræktina sem ákveðinn vaxtarbrodd í okkar samfélagi. Ég var sjálfur nýlega á tveimur þjóðfundum í mínu kjördæmi þar sem sýnd var sérstök kynningarmynd einmitt um möguleika á loðdýrarækt sem nýsköpun og vaxtarbroddi í landbúnaðinum og er ekki ólíklegt að ýmsum komi það á óvart.

Tjónið af þessum völdum á Skörðugili var að mati formanns Sambands íslenskra loðdýrabænda, Björns Halldórssonar — hann talaði um að ef þetta væru um 3.000 dýr mætti gera ráð fyrir að þarna væri um að ræða 12 millj. kr. tjón og síðan hið óbeina tjón sem fólgið væri í því að ræktunin hryndi. Við erum hér að tala um gríðarlega mikla hagsmuni sem skipta miklu máli og þess vegna er eðlilegt að við veltum því fyrir okkur hvaða reglur gildi um lágmarksbirgðir af lyfjum og bóluefni vegna dýrasjúkdóma. Fram kom að þegar sjúkdómurinn kom upp á Skörðugili og á Ingveldarstöðum í október voru ekki til birgðir í landinu og menn urðu að bíða eftir því að þær yrðu framleiddar. Á Keldum stóðu menn sig vissulega mjög vel við að framleiða þessi lyf en tíminn vann að sjálfsögðu gegn mönnum, biðin var löng og tjónið varð eins og ég rakti.

Eggert Gunnarsson, dýralæknir á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, skrifaði um þetta grein í Bændablaðið fyrir skömmu þar sem hann gerir grein fyrir þessum sjúkdómi og veltir þessu máli nokkuð fyrir sér. Hann segir að best sé að bólusetja minkastofninn fyrirbyggjandi um mitt sumar og að hans mati sé ekki vafamál að bændur ættu að íhuga alvarlega að taka upp slíka bólusetningu. Spurningin sem hefur hins vegar vaknað í huga mjög margra bænda er hvort ekki þurfi að hafa reglur um lágmarksbirgðir af bóluefni og lyfjum til þess að mæta því þegar svona fár kemur upp. Það er ekki við því að búast að hver og einn bóndi geti legið með slíkar lyfjabirgðir á eigin kostnað og eðlilegt að menn velti því a.m.k. fyrir sér með hvaða hætti eigi að hafa reglurnar um þetta, hver eigi að bera þennan kostnað o.s.frv. Þess vegna hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvaða reglur gildi um lágmarksbirgðir af lyfjum og bóluefni vegna dýrasjúkdóma.