138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

73. mál
[12:20]
Horfa

Flm. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna og hversu vel þeir sem tóku til máls tóku undir tillöguna. Ég vil líka fá að biðjast afsökunar á því að ég skyldi ekki hafa talað við einhvern í þingflokki Vinstri grænna. Ég er sannfærð um að það er ekki bara hv. þm. Lilja Mósesdóttir sem vill gjarnan reyna að aðstoða íslensk fyrirtæki í þeim mikla vanda sem þau eru að fást við, það er örugglega hægt að fullyrða að nánast allir þingmenn Vinstri grænna séu sammála þessu.

Okkur þingmönnum er ekki sama um það sem við horfum upp á í íslensku efnahagslífi. Það sem skiptir líka svo miklu máli við þessa hugmynd er það að þó að við séum mjög upptekin af þeim vanda sem við erum að fást við núna, þessari geysilegu efnahagskreppu, er þessu ekki ætlað að leysa einhvern vanda sem er bara núna. Það skiptir miklu máli að við komum þessu á stofn núna en eftir það, þegar við verðum komin út úr þessu, verðum komin út í það sem við mundum kannski kalla venjulegt efnahagsástand, á svona stofnun, á svona ráðgjafarstofa, alveg jafnmikinn rétt á sér. Eins og ég hef ítrekað í máli mínu er samasemmerki á milli stofnunar fyrirtækja og þess að fyrirtæki hætta rekstri eða komast í þrot.

Það voru aðeins fleiri konur sem tóku til máls í þessu máli og væri einmitt mjög áhugavert að skoða ákveðinn kynjamun í því hvernig konur og karlar ljúka rekstri. Það hefur komið fram í rannsóknum frá Bandaríkjunum að konur eru mun líklegri til þess að hætta rekstri, þær borga upp skuldir sínar og loka fyrirtækjunum. Þetta vísar kannski aftur til þess að konur eru oft varfærnari í peningamálum og taka þá fyrr ákvörðun um að reksturinn gangi ekki eftir og þegar fyrirtæki þeirra hætta rekstri þá eru þau ekki sett í þrot, þau fara ekki í gegnum gjaldþrotameðferð. Þetta er tæki þar sem verið er að kenna fólki að þekkja viðvörunarmerkin, vita hvenær á að bregðast við og bregðast sem fyrst við til að takmarka skaðann.

Það er líka spurning hvernig hægt er að fjármagna svona verkefni, svona ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluerfiðleikum. Þegar fyrirtæki lenda í örðugleikum er það vegna þess að ekki eru til staðar peningar í fyrirtækjunum. Það er áhugavert að í þessari ábendingu frá ríkisskattstjóra er verið að benda á að hægt væri að ná inn meiri tekjum í ríkissjóð. Það er svo kannski allt önnur umræða en við þyrftum að ræða það hvernig við getum jafnvel styrkt ríkisskattstjóra til að tryggja að hann nái inn ógreiddum sköttum sem eru oft hjá fyrirtækjum sem eru komin í mikla fjárhagslega óreiðu. Þó að við værum að tala um ákveðin útgjöld fyrir ríkið gætu þeir fjármunir skilað sér inn annars staðar og mun meiri fjármunir í raun og veru.

Ég nefndi það líka að ef fólk fær ekki aðstoð — við getum t.d. verið að tala um fólk sem er að missa húsnæði sitt vegna þess að það er í ábyrgð fyrir fyrirtækið sitt. Hjónabönd hafa flosnað upp, fólk hefur skilið, og ég þekki dæmi um að fólk hefur tapað heilsunni vegna álags við það að reyna að vinna sig úr út erfiðleikunum við fyrirtæki sitt. Allt er það kostnaður sem leggst á samfélagið og við þurfum að horfa á þetta dálítið heildstætt út frá því.

Ég þakka kærlega fyrir umræðuna og ég vonast til að efnahags- og skattanefnd vinni þetta mál vel og hratt. Við fáum vonandi að sjá ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluerfiðleikum taka fljótt og vel til starfa.