138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[13:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er athyglisvert að hv. þm. Ögmundur Jónasson svarar ekki spurningu minni um það hvort hæstv. fjármálaráðherra hefði átt að upplýsa utanríkismálanefnd. Ég spyr og velti fyrir mér: Er hann að koma sér hjá því vegna hugsanlegra innanflokksátaka í Vinstri grænum eða af því að svar hans er þess eðlis að það mundi hugsanlega skaða ríkisstjórnina? Ég trúi ekki öðru en að hv. þingmaður taki undir með mér — (ÖJ: Ég skal svara hv. þingmanni á eftir.) að hann taki undir með mér að það hefði átt að upplýsa utanríkismálanefnd um þetta. (ÖJ: Ég tek undir með þingmanninum.)

Ég vil vitna í orð hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sem sagði m.a. að Saddam Hussein hefði dundað sér við að myrða eigin þegna. Eru menn búnir að gleyma frammi fyrir hverju menn stóðu á sínum tíma? Ég vil undirstrika það líka, þannig að ekki sé farið út í hártoganir, að auðvitað viljum við að það verði farið yfir þetta allt saman. Það á ekki að vera neitt að fela og það má ekki vera neitt að fela, vegna þess að við þurfum að læra af fortíðinni í þessu máli eins og öllum öðrum. Það verður að upplýsa um allt sem menn vilja vita, það er eðlileg og sanngjörn krafa í íslensku samfélagi. Þess vegna er ég ekki mótfallin því sem er sett hér fram. Ég vil að menn dragi þetta fram í dagsljósið eins og þetta er og haldi því ekki fram að þetta hafi verið ólögmæt ákvörðun á sínum tíma þegar hún var það ekki og lögfræðiálit liggur fyrir hvað það varðar.

Við styðjum að þessi gögn verði sett fram og dregin fram í dagsljósið ef það verður til þess að bæta verklag m.a. á milli Alþingis og ríkisstjórnar þannig að utanríkismálanefnd þingsins verði t.d. ekki bara upplýst um hugsanlegar eða væntanlegar innrásir NATO-ríkjanna heldur ekki síður um stórmál sem skipta hagsmuni landsins máli til lengri tíma litið og þá er ég að sjálfsögðu með Icesave-málið í huga. Þar hefðum við átt að fá (Forseti hringir.) meiri upplýsingar. Ég sé að hv. þingmaður kinkar kolli, (Forseti hringir.) hann samþykkir að utanríkismálanefnd (Forseti hringir.) átti að vera upplýst um málið.