138. löggjafarþing — 77. fundur,  18. feb. 2010.

birting skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

289. mál
[17:01]
Horfa

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara í lagatúlkanir eða lagaágreining við hv. þingmann varðandi greinargerð Eiríks Tómassonar. Ég segi hins vegar það sama og ég sagði hér áðan að þetta er álit eins lögmanns og hefur ekkert gildi í sjálfu sér nema álitið sé staðfest fyrir héraðsdómi og síðan Hæstarétti.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um Morgunblaðið þá er nú ágætt að einhver hv. þingmaður heldur uppi vörnum fyrir Morgunblaðið og þá sem stýra þar málum. Sá pistill sem hv. þingmaður vísar til er varla hægt að kalla fréttaskýringu Morgunblaðsins því að þetta er pistill frá Kolbrúnu Bergþórsdóttur undir yfirskriftinni „Erindisleysi Steinunnar Valdísar“, þar sem blaðamaðurinn talar um að Steinunn Valdís hafi upplýst þjóðina um að hún horfi á sjónvarp og sæki þangað hugmyndir. Þetta var sem sagt efnisleg umfjöllun Morgunblaðsins tveimur dögum áður en pistill birtist síðan í Reykjavíkurbréfinu þar sem talað var um að sú sem hér stendur og hv. þm. Ögmundur Jónasson væru hermikrákur sem hefðu krunkað hér uppi á Íslandi, svo merkilegt sem það nú er, og hermt eftir Bretum sem væru að ákveða að rannsaka Íraksstríðið. Ég tel þetta ekki vera málefnalega fréttaskýringu af hálfu blaðs allra landsmanna. Það var þetta sem ég vísaði til áðan þegar ég ræddi Morgunblaðið sérstaklega en eins og ég sagði vildi ég þó hafa það sem sannara reyndist varðandi það að lítil klausa birtist um að þessi tillaga hefði verið flutt 2. febrúar.