138. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2010.

nauðungarsala.

389. mál
[16:21]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar. Ég ætla að reyna að svara eins miklu og ég get í þessu fyrra andsvari. Það var rætt um lengri frest við undirbúning málsins og þegar við tölum um lengri frest koma til álita bæði kostir og gallar. Í fyrsta lagi mundi lengri frestur e.t.v. verða til þess að einstaklingar teldu sig hafa meiri tíma til að leita úrræða. Það yrði líka hugsanlega til þess að bankar og lánastofnanir teldu sig hafa nægan tíma til að leysa úr þessum málum og í þriðja lagi gæti það valdið því að stjórnvöld teldu sig hafa nægan tíma til að huga að þessari stöðu. Virðulegi forseti, ég tel að tíminn sé ekkert óskaplega langur og hann vinni alls ekki með okkur.

Í rauninni var grundvallaratriði að ákveða þennan frest með þessum hætti en síðan kom héraðsdómurinn um myntkörfulánin sem veldur því að það má spyrja sig: Er þessi frestur e.t.v. of skammur? Við lögðum upp með þetta svona því að Alþingi og stjórnvöldum gefst þá hugsanlega kostur á því að endurmeta stöðuna, t.d. þegar líða tekur á maímánuð og Alþingi situr enn þá. Vissulega kemur hin leiðin til greina, að hafa frestinn lengri miðað við þá réttarstöðu sem er komin upp varðandi þessi tilteknu lán.

Hvað varðar úrræðin sem verið er að vinna að þá erum við að skoða breytingar á lögum um greiðsluaðlögun, við erum að skoða breytingar á lagaákvæðum hvað varðar nauðungarsölu sem bæta réttarstöðu lánþega eða gerðarþola og síðan erum við líka með hópmálsókn og fleiri úrræði. Ég sé þó að það eru líka komin fram þingmannamál um þetta þannig að það er kannski ekki svo óskaplega flókið að finna út úr þessu.

Hvað varðar flýtimeðferðina og það frumvarp, ég fæ kannski að koma inn á það á eftir.