138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að taka hér upp málstað Færeyinga. Þó að menn séu í mismunandi flokkum held ég að það sé alveg ljóst að allir þingmenn, hvar sem þeir í flokki standa, standa sameinaðir að baki Færeyingum og við munum að sjálfsögðu taka á með þeim í hverju sem þeir vilja.

Ég kem þó hér upp aðallega til þess að ræða um þjóðaratkvæðagreiðsluna og þau ummæli sem hér hafa fallið um hana. Ég vil segja það að ég er ekki alls kostar ósammála þeirri rökfræði um samningatækni sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir flutti hérna áðan. Hitt vil ég hins vegar segja að það er alveg ljóst að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir og Gunnar Bragi Sveinsson hafa gleymt því hvernig sú staða sem núna hefur skapast varð til. Hún varð til með þeim hætti að forustumenn tveggja stjórnmálaflokka réttu út höndina til stjórnarinnar og lýstu því yfir að þeir væru til í það að reyna að skapa samstöðu og ná nýjum samningi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var lógískt af þeim. Af hverju? Vegna þess að þá var komin ný staða. Þegar forseti Íslands synjaði lögunum um staðfestingu skapaðist ný staða. Menn eru að reyna að vinna úr henni.

Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni hér áðan að það er töluvert langt á milli þess sem Íslendingar fóru með og þess sem fram hefur komið. Hins vegar hirði ég ekkert um þó að einstaka samningsþjóðir segi að þetta sé síðasta tilboðið. Ég hef verið í samningum og ég veit að þeim er ekki lokið fyrr en búið er að setja punktinn fyrir aftan þá. Hins vegar segi ég það, ég hef auðvitað málfrelsi og skoðanafrelsi eins og aðrir, ég var spurður að því hvort ég teldi að það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla ef það væri búið að ljúka dæminu. Ég segi alveg heiðarlega: Hver á að greiða atkvæði með gildandi lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu ef á borðinu liggur nýr samningur sem er betri?