138. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2010.

almenn hegningarlög.

45. mál
[16:26]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni, flutningsmanni frumvarpsins, ágæta ræðu. Hann talar um þessi mál af mikilli þekkingu. Þegar talað er um refsilöggjöfina skiptir framsetning refsiákvæðanna miklu máli og af því tilefni kem ég hér upp. Í sjálfu sér er ég algjörlega sammála markmiðum frumvarpsins og þeirri hugsun sem þar kemur fram en vildi spyrja flutningsmann eins.

Í frumvarpinu er lagt til að ákvæðið verði einfaldað og verknaðarlýsingin þá felld brott og í greinargerð segir að réttarvörslukerfið hafi gefið afleiðingum nauðgana afar lítinn gaum. Þá er spurning mín fyrst og fremst sú hvort hv. þingmaður hafi tekið til athugunar hvort það væri jafnvel þörf á að gera ákvæðið ítarlegra frekar en að gera það einfaldara, hvort það geti hugsanlega valdið meiri varfærni eða tregðu við beitingu þess ef það verður gert einfalt. Er kannski þörf á að bæta við það?