138. löggjafarþing — 82. fundur,  25. feb. 2010.

framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

342. mál
[17:56]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Kristján Þór Júlíusson, Pétur H. Blöndal, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Ásbjörn Óttarsson og Jón Gunnarsson.

Megintilgangurinn með þessu lagafrumvarpi er að draga úr millifærslukerfi í landbúnaði og gera verðlagninguna gagnsærri. Ætla má að með þessu verði skilyrði fyrir samkeppni einnig bætt og innlendum mjólkurafurðastöðvum gert betur kleift að takast á við samkeppni frá útlöndum. Þá mun skilgreindur opinber stuðningur við landbúnað lækka um allt að 400 millj. kr.

Frumvarp um skylt mál var flutt á 135. löggjafarþingi. Þá fékk málið jákvæðar viðtökur fulltrúa tveggja af þremur þeirra stjórnmálaflokka sem til máls tóku í 1. umr. Fram kom það sjónarmið þingmanns Samfylkingarinnar að ganga ætti lengra í átt til frjálsrar verðlagningar.

Fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, núverandi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, taldi á hinn bóginn að verið væri, eins og þar segir, með leyfi virðulegs forseta: „að fella niður eina af þeim stoðum sem settar voru til að standa undir félagslega uppbyggðu landbúnaðarkerfi, bæði framleiðslu, úrvinnslu og dreifingu á mjólk og mjólkurvörum …“.

Svo ég víki nú að þeirri gagnrýni, þá er hún auðvitað algjörlega fráleit og ég held að þetta hafi fyrst og fremst lýst miklum misskilningi eða þekkingarleysi hv. þáverandi þingmanns á málinu. Ekki er verið að veikja á nokkurn hátt stoðir landbúnaðarkerfisins, öðru nær, forsendur landbúnaðarins væru styrktar með því að fara í þessa átt. Enda er það svo að mál af þessu tagi hefur notið stuðnings mjólkurframleiðenda, Bændasamtakanna og Samtaka afurðastöðva og þetta mál er líka til þess fallið að styrkja stöðu neytenda þegar grannt er skoðað, því ef þetta yrði að lögum yrði verðlagningin öll gagnsærri og eðlilegri. Því miður hlaut málið ekki endanlega afgreiðslu. Það frumvarp sem nú er flutt byggist að talsverðu leyti á þeim hugmyndum sem þá voru settar fram en er þó sett fram í nokkuð öðrum búningi.

Hér verður gerð grein fyrir núgildandi fyrirkomulagi þessara mála og þess freistað að varpa ljósi á hvernig þau hafa þróast. Í upphafi dreg ég fram muninn á verðmiðlun annars vegar og verðtilfærslu hins vegar.

Í 19. gr. laganna er verðmiðlunargjaldinu lýst og ég ætla ekki að rekja það sérstaklega en vísa eingöngu í þá grein. Um það varð samkomulag á sínum tíma í verðlagsnefnd búvara, við verðlagningu sem átti sér stað þann 1. janúar 2006, að beina því til stjórnvalda að hætta innheimtu verðmiðlunargjalds með breytingu á lögum þar sem ekki væri þörf á því eftir sameiningu fyrirtækja í mjólkuriðnaði. Fulltrúar ráðuneytis, launþegahreyfingarinnar, þ.e. Alþýðusambands Íslands og BSRB, sem og fulltrúar bænda og fulltrúar afurðastöðva voru sammála um þessa ráðstöfun. Þetta var í raun hluti af verðlagsákvörðun nefndarinnar 1. janúar 2006.

Vík ég nú að verðtilfærslunni sjálfri. Samkvæmt búvörulögum er ákvæðum um verðtilfærslu mjólkurvara skipt í tvennt. Í fyrsta lagi er um að ræða hinn lögbundna þátt skv. 22. gr. laganna þar sem gert er ráð fyrir 2,65 kr. á lítra innan greiðslumarks. Þennan lögbundna hluta verðtilfærslunnar verður samkvæmt lögum að framkvæma með innheimtu og útgreiðslu miðað við lítra og/eða kíló vöru samkvæmt verðskrá verðlagsnefndar búvöru eins og nefndin ákveður hverju sinni. Innheimtan svarar um 310–320 millj. kr. á ári. Greitt er úr sjóðnum með vörum eins og nýmjólk, smjöri, undanrennudufti o.fl., þ.e. þeim vörum sem eru undirverðlagðar. Það er í raun þannig að þær vörur sem hér er vísað til eru ekki verðlagðar að fullu eins og í raun og veru kostnaður gefur tilefni til heldur er með verðlagningunni málunum stýrt þannig að verði á þessum vöruflokkum er haldið niðri með því að verðleggja aðra vöruflokka hærra. Fjárreiðum og rekstri þessara sjóða er síðan haldið aðskildum frá öðru og er ársreikningur staðfestur af löggiltum endurskoðanda og sendur Fjársýslu ríkisins ár hvert. Þessi upphæð kemur síðan inn í fjárlögin, annars vegar sem inngreiðsla og hins vegar sem útgreiðsla, án þess að vera þó eiginleg ríkisútgjöld. Þrátt fyrir það eru þessar greiðslur túlkaðar sem opinber stuðningur þegar metinn er opinber stuðningur við íslenskan landbúnað vegna samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, og tilkynninga þar að lútandi. Ástæðan er sú að þessi ráðstöfun er gerð fyrir tilstilli hins opinbera með löggjöf, jafnvel þótt hér sé eingöngu verið að færa rekstrarfé afurðastöðva til á milli vöruflokka mjólkur.

Ríkið leggur ekki til fjármuni úr ríkissjóði til þessa verkefnis, eins og ég hef þegar rakið. Þessu er mjög mikilvægt að fólk átti sig á vegna þess að þegar ríkisstuðningur við landbúnað hér á landi er borinn saman við ríkisstuðning við landbúnað í öðrum löndum er þetta ævinlega tekið þannig að þær u.þ.b. 400 milljónir króna sem verðtilfærslan og verðmiðlunin nema eru reiknaðar að fullu sem stuðningur ríkisins við landbúnaðinn og í því áróðursstríði sem landbúnaðurinn hefur oft orðið fyrir barðinu á er þar með veifað tölum sem eru mjög villandi.

Þó að ekki væri nema af þessum ástæðum væri auðvitað full ástæða til að skoða þessi mál og þegar við bætast síðan annars konar rök sem ég hef að hluta til gert grein fyrir og mun rekja hér betur á eftir er augljóst að það er gífurlega þýðingarmikið að við breytum þessu fyrirkomulagi. Þetta er einn af þeim ásteytingarsteinum sem er algjörlega ástæðulaus og hefur verið notaður til að berja á landbúnaðinum með mjög ósanngjörnum og óréttmætum hætti.

Hitt ákvæðið sem varðar verðmiðlun er svokölluð frjáls verðmiðlun skv. 13. gr. laganna þar sem innheimt er af seldum lítrum og/eða kílóum af tilteknum vörum með háa framlegð og greitt út á vörur með lága eða neikvæða framlegð eftir seldu magni.

Tekjustofn þessa hluta og útgreiðslur eru eftirfarandi: Sjóðurinn hefur tekjur af vöruflokkum með háa framlegð svo sem rjómaís, jógúrtvörum og sérostum. Gjöld sjóðsins felast í því að greitt er með vörum sem hafa lága eða neikvæða framlegð, sem hafa undangengin ár verið magur ostur, skyr og drykkjarmjólk.

Í 13. gr. laganna sem heimila þessa tilfærslu segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði samkeppnislaga er afurðastöðvum í mjólkuriðnaði heimilt að gera samninga sín á milli um verðtilfærslu milli tiltekinna afurða. Leggja skal slíka samninga fyrir verðlagsnefnd til upplýsingar.“

Á undanförnum árum hefur verðlagsnefnd, í samkomulagi við mjólkuriðnaðinn, nýtt þennan hluta verðtilfærslunnar til að greiða niður drykkjarmjólk, þ.e. nýmjólk, þar sem tekjustofn lögbundins hluta hefur verið fullnýttur og ekki er svigrúm til frekari gjalda. Í frumvarpinu eru ekki lagðar til breytingar á þessum hluta verðmiðlunar, þ.e. hinni frjálsu verðmiðlun sem á sér stað innan afurðastöðvanna sjálfra án atbeina ríkisvaldsins.

Á hinn bóginn er lagt til í frumvarpinu að 19. gr. búvörulaga um álagningu verðmiðlunargjalds verði felld brott. Breytingunni er ætlað að færa form og ábyrgð rekstrar til afurðastöðvanna. Sú breyting sem hefur orðið á rekstrarumhverfi fyrirtækja í mjólkuriðnaði gerir þetta verðmiðlunarkerfi þess utan óþarft. Lagt er til að verðtilfærslugjald skv. 22. gr. búvörulaga verði afnumið og form og ábyrgð rekstrar þannig fært til afurðastöðvanna sjálfra. Nokkur forsaga er að baki þessu, þ.e. verðtilfærslu á milli einstakra mjólkurafurða. Á sínum tíma voru niðurgreiðslur á verði mjólkur og mjólkurafurða mjög breytilegar sem hlutfall af verði hverrar afurðar. Niðurgreiðslur voru afnumdar árið 1992 og þess í stað teknar upp beinar greiðslur til bænda og þá var ákveðið, til að valda ekki röskun á markaði, að heimila tilfærslur á milli verðs einstakra afurða. Verðtilfærsla milli mjólkurafurða hefur verið stunduð síðan þá. Ljóst er hins vegar að þetta fyrirkomulag stuðlar að umdeilanlegri verðmyndun og tekur ekki nægjanlegt tillit til raunverulegs framleiðslukostnaðar. Allt að einu er það ekki talið eðlilegt að opinber stýring af þessu tagi stýri verðlagningu einstakra vörutegunda og vöruflokka þar sem verðlagning á einni vörutegund er notuð til þess að lækka eða hækka verð á annarri vörutegund.

Jafnframt er lagt til að felldar verði brott greinar sem fjalla um framkvæmd verðmiðlunar og verða óþarfar að samþykktum þeim breytingum sem í frumvarpinu felast.

Virðulegi forseti. Þetta mál, eins og ég nefndi áðan, var lagt fram í nokkuð breyttri mynd á 135. löggjafarþingi og var þá þingskjal 218, 203. mál. Það er dálítið athyglisvert að þrátt fyrir að þetta mál hafi fengið býsna góðar viðtökur, m.a. frá þeim fulltrúa Samfylkingarinnar sem talaði í því, var það svo að þetta mál fékk ekki afgreiðslu. Ég vek athygli á því hverjir stóðu að málinu í raun og veru, hverjir lýstu yfir stuðningi við það. Það voru í fyrsta lagi bændurnir, í öðru lagi afurðastöðvar bændanna, í þriðja lagi Alþýðusamband Íslands og í fjórða lagi Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, BSRB. Með öðrum orðum, fulltrúar neytenda, fulltrúar framleiðenda og framleiðslufyrirtækin sjálf kölluðu á þessar breytingar og fyrir þeim eru mjög gild og góð rök.

Einhverra hluta vegna hlupu þeir svo í sig, samfylkingarmenn, að þeir gerðu þetta að úrslitaatriði sínu, sinni miklu hugsjón, að koma í veg fyrir þetta mál þrátt fyrir að svona breið samstaða væri um það, ekki bara innan landbúnaðarins heldur ekki síður meðal neytenda, sem kölluðu eftir þessu. Samfylkingin, einhverra hluta vegna, kaus að setja undir sig hausinn og berjast gegn þessu máli og tókst vegna stöðu sinnar þá að koma í veg fyrir að þetta mál fengi samþykki.

Ég vek athygli á því að núverandi ríkisstjórn hefur starfað á annað ár og hvernig stendur á því að ekkert bólar á slíku máli í formi stjórnarfrumvarps? Ætli það sé ekki vegna þess að bullandi ágreiningur er um þetta mál innan ríkisstjórnarinnar. Ég þykist vita að þrátt fyrir orð hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi menn innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs býsna góðan skilning margir hverjir á þessu máli. Margir góðir og gegnir mjólkurframleiðendur hafa t.d. skipað sér í flokk með vinstri grænum og þeir gera sér grein fyrir því að þetta mál skiptir máli fyrir þá atvinnustarfsemi sem þeir stunda. Þess vegna er mjög mikilvægt að okkur takist að mynda um þetta samstöðu sem gengur þvert á ríkisstjórnarböndin til að tryggja það að þetta mál fái framgang.

Við getum auðvitað ekki búið við það að þegar hörð samkeppni er á markaði um matvörur sé einn afurðaflokkurinn negldur niður með þessum hætti sem veldur því að samkeppnisstaða hans raskast. Nú kann einhver að segja: Það er engin samkeppni um nýmjólkina frá útlöndum, það er engin samkeppni um ýmsar þær afurðir sem þarna er verið að framleiða. Það er rétt að það er kannski ekki bein samkeppni að öllu leyti á milli vöruflokkanna, þó er innfluttur ostur, það er innflutt jógúrt, það eru innfluttar ýmsar slíkar afurðir. En gleymum því ekki að þessar afurðir eru líka í samkeppni við aðrar matvörur í landinu og þess vegna er svo þýðingarmikið að við búum þannig um hnútana að þessi atvinnugrein, mjólkuriðnaðurinn, hvort sem um er að ræða bændur eða afurðafyrirtæki þeirra, hafi eðlilegt svigrúm og verðlagningin sé þannig að þeir lendi ekki í því að einhverjir aðilar komi inn á markaðinn og nýti sér það að verðlagningin er með þessum hætti og grafi þannig undan mjólkurframleiðslunni til lengri tíma litið.

Það á ekki síst við núna eftir hrunið, þegar skuldir bænda hafa hækkað og menn þurfa á öllu sínu að halda skiptir miklu máli að við reynum að ganga þannig frá þessum málum að það sé landbúnaðinum í hag og þar með íslenskum neytendum líka, því auðvitað er það sameiginlegt hagsmunamál neytenda og bænda að íslenskur landbúnaður gangi vel.

Nýverið var greint frá tölum frá Hagstofu Íslands um hækkun á verðlagi á síðasta eina ári eða svo og einn vöruflokkur sker sig úr þar sem hækkanir hafa verið minnstar. Hvaða vöruflokkur skyldi það nú vera? Jú, íslenskar búvörur. Hvers vegna nefni ég þetta? Meðal annars til að vekja athygli á því að íslenskur landbúnaður stendur sig vel nú eins og fyrri daginn. Ég er líka að vekja athygli á þessu vegna þess að mjög margir hafa einhverra hluta vegna talið sér skylt að hnjóða í íslenskan landbúnað og láta í veðri vaka að hann haldi uppi vöruverði í landinu.

Nýlega var í Bændablaðinu ákaflega athyglisverður samanburður á verðlagningu landbúnaðarvara hér og í Evrópu og að mig minnir jafnvel víðar. Þar kemur fram að íslenskur landbúnaður stendur sig vel gagnstætt því sem haldið var fram um miðjan tíunda áratuginn eða svo þegar gerð var afar umdeild skýrsla um matvöruverð hér á landi samanborið við matvöruverð í öðrum löndum. Sá samanburður sem þá var gerður var fyrir margra hluta sakir mjög rangur. Bæði var verið að bera okkur saman við lönd þar sem launastrúktúrinn og launastigið er allt annað og síðan ekki síður hitt að þetta var gert þegar gengi íslensku krónunnar var of hátt. Nú er það að sönnu lágt en af hverju skyldum við ekki skoða þessi mál og bera saman við ástandið eins og það er núna þegar gengið er lágt og menn spá því almennt að það verði lágt um einhvern tíma? Skyldi það vera vegna þess að menn hafa ekki áhuga á því að vekja athygli á góðri stöðu íslensks landbúnaðar og hvernig íslenskur landbúnaður leggur í raun og veru mikið af mörkum til að halda aftur af verðlagshækkunum í landinu?

Þetta er kannski ekki algjörlega skylt því máli sem hér er verið að leggja fram — og þó. Hér er kjarni málsins sá að reyna að leggja fram frumvarp sem fyrst og fremst hefur það að markmiði að bæta samningsstöðu, samkeppnisstöðu og það samkeppnisumhverfi sem íslenskur mjólkuriðnaður býr við. Það er markmiðið með þessu. Ef það er gert mun það auðvitað leiða til hagsbóta fyrir neytendur rétt eins og fulltrúar ASÍ og BSRB hafa komist að.

Í sjálfu sér er eðlilegt að hugsa þetta þannig að þessi breyting geti tekið gildi á einhverjum tíma þannig að verðlagsbreytingar innan mjólkurafurðanna verði ekki jafnskarpar og ella, það er eðlileg ábending og hefur t.d. komið fram af hálfu neytenda, fulltrúa ASÍ og BSRB. Þegar ég sem þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagði fram ekki ólíkt frumvarp höfðu þeir nokkurn beyg af því ef í því væri ekki kveðið á um það að þessi aðlögun yrði á einhverjum dálitlum tíma. Þeir óttuðust að verðhækkunin yrði mjög skörp á einum stað og verðlækkunin einnig skörp á öðrum stað. Þess vegna var kveðið á um það í því frumvarpi að framlegðarkröfurnar sem gert væri ráð fyrir gætu verið breytilegar á milli vöruflokka og það var einmitt þetta atriði sem Samkeppnisstofnun rak horn sín í og gerði það að verkum að Samfylkingin hrökk af hjörunum í málinu.

Þó var það þannig, sem er athyglisvert, að þetta ákvæði var ekki síst sett inn til að koma til móts við skiljanlegar áhyggjur neytendafulltrúanna, verkalýðshreyfingarinnar, og þeim mun óskiljanlegra var það mér á sínum tíma að þetta mál skyldi daga uppi á þinginu eins breið samstaða og í raun og veru var á bak við það.

Af þessum ástæðum, virðulegi forseti, tel ég mjög mikilvægt að þetta mál verði afgreitt á þessum vetri. Ég veit að það mun fá vandaða meðferð eins og önnur mál í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og mun væntanlega fá umsögn frá þeim aðilum sem þekkja þessi mál og eiga um að véla og hafa hagsmuni af málinu. Það verður auðvitað fróðlegt að sjá þær umsagnir. Ég trúi því að í meginatriðum verði þær jákvæðar þó að vonandi komi þar líka fram uppbyggilegar athugasemdir og ábendingar um eitthvað sem betur má fara og þá er sjálfsagt að verða við því.

Ég tel, virðulegi forseti, svo ég ítreki það, að þetta mál sé mikilvægt. Það tekur að sönnu ekki á öllum þeim vanda sem við er að glíma í mjólkuriðnaðinum og mjólkurframleiðslunni, ég veit að menn hafa verið að skoða ýmis önnur mál sem þarf líka að ná fram og ég ætla ekki að gera hér að umtalsefni. En þetta er liður í því að styrkja samkeppnisstöðu þessarar mikilvægu atvinnugreinar okkar og um leið er þetta til hagsbóta fyrir neytendur að mati Alþýðusambands Íslands og BSRB.

Að lokinni þessar umræðu, virðulegi forseti, legg ég til að málinu verði vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og 2. umr.