138. löggjafarþing — 84. fundur,  2. mars 2010.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég spyr hv. þingmann á móti: Ef atvinnulífið vill þetta og hefur sagst ætla að ná þessu markmiði fyrir árið 2013, af hverju í ósköpunum þurfum við að vera að setja á það lög? Af hverju í ósköpunum þurfum við að grípa inn í það ferli sem hefur alla burði til að ná þessu markmiði með jákvæðni án þess að löggjafarvaldið (Gripið fram í.) setji því einhverjar skorður? (Gripið fram í.) Núna er þetta ekki hvatning, heldur eitthvað sem hangir yfir samtökunum. Ég er á þeirri vegferð og ég er þeirrar skoðunar að eitthvað sem maður gerir vegna þess að maður vill það sjálfur sé betra en eitthvað sem maður gerir af því að maður þarf að gera það. Ég get ekki skilið að það sé svo óskiljanleg vegferð vegna þess að ég sagði í upphafi og ítreka það núna, ef hv. þingmaður (Forseti hringir.) hefur ekki heyrt í mér, að það er ekki svo að ég sé andvíg jafnrétti. Ég er andvíg þessari aðferðafræði.