138. löggjafarþing — 85. fundur,  3. mars 2010.

nemendur í framhaldsskólum.

366. mál
[14:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Þær voru athyglisverðar tölurnar sem hæstv. menntamálaráðherra setti fram varðandi þá sem eru í framhaldsskólum, það eru um 30 þúsund manns sem eru í framhaldsskólum. Þetta eru reyndar nokkuð gamalkunnar staðreyndir, að þeir séu fleiri en nemendur í þeim fæðingarárgöngum í framhaldsskólunum, þ.e. frá 16 ára til tvítugs. Við vitum að það eru um 4.500 nemendur að meðaltali í hverjum fæðingarárgangi, stúdentsprófið er fjögur ár þannig að það ættu að vera um það bil 16–18 þúsund manns í framhaldsskólum. Kerfið sinnir miklu fleirum og það er jákvætt. Það verður að passa upp á að kerfið sé opið fyrir þá sem eru að reyna að finna fjölina í skólakerfinu. Þess vegna fagna ég því sérstaklega að framhaldsfræðslan eða fullorðinsfræðslan er á leiðinni úr menntamálanefnd, sem skiptir miklu máli og hjálpar þeim hópi sem ekki hefur fundið sig innan hins hefðbundna skólakerfis en þarf, vill og sækist engu að síður eftir því að reyna að fá fjölbreyttari undirstöðu, aukna menntun og þekkingu frá öðrum sviðum en boðið er upp á innan hins almenna kerfis. Ég fagna því að það (Forseti hringir.) skuli vera á leiðinni og hvet jafnframt hæstv. ráðherra til að stuðla að því að fjölbreytnin (Forseti hringir.) innan nýju rammanna, innan skólalöggjafarinnar verði nýtt til hins ýtrasta.