138. löggjafarþing — 87. fundur,  8. mars 2010.

endurskoðun á samstarfsáætlun við AGS.

[16:16]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég tel alveg ljóst að sá dráttur sem þegar hefur orðið hefur þegar haft neikvæð áhrif, bæði á almenna hagþróun og sérstaklega á tekjur og útgjöld hins opinbera. Það er raunverulega þegar orðið tímabært að taka tillit til þess, en auðvitað versna áhrifin bara eftir því sem lengra líður á árið. Einhverjir dagar eða vikur til eða frá skipta kannski ekki höfuðmáli, en ef við höfum ekki neinn almennilegan aðgang að erlendu fjármagni langt fram eftir árinu er alveg augljóst að sú áætlun um efnahagsmál sem m.a. var lögð til grundvallar fjárlögum er algjörlega brostin og þá þyrfti að skoða fjárlögin upp á nýtt. Vitaskuld mundum við jafnframt leita allra leiða til að afla fjármagns annars staðar að. Það verður ekki undan því skotist að við þurfum að velta áfram lánum og fjármagna fjárfestingar með einhverjum hætti, en það verður miklu dýrara ef við höfum ekki aðgang að því fjármagni sem við höfðum tryggt okkur með áætlun AGS.