138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

staða atvinnuveganna.

[14:30]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi áttað mig á því endanlega núna út á hvað þessi samræðustjórnmál Samfylkingarinnar ganga. Þau ganga út á það að kasta fram í umræðuna fallegum orðum eins og grænum iðnaði, nýsköpun, fjölbreytni, samstöðu og alls kyns fleiri orðum sem eru út af fyrir sig góð og gild en gera ekkert fyrir atvinnulausa í landinu. 15.000 manns eru atvinnulausir, atvinnuleysi er 9% og það er algjörlega ólíðandi.

Hæstv. iðnaðarráðherra minntist á að um 500 störf hefðu skapast í tölvuleikjaiðnaði. Það er vel. Er það ríkisstjórninni að þakka? Nei. Er það ekki kannski krónunni að þakka og þeirri staðreynd (Gripið fram í: Nei.) að við búum hér við íslenska krónu sem getur haldið uppi atvinnulífi í útflutningsgreinunum? Hún er að bjarga okkur í dag.

Ég saknaði eins úr ræðu hæstv. iðnaðarráðherra, þess að hún skyldi ekki koma betur inn á atvinnusköpun og atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Fyrir ekki svo löngu fór hér fram utandagskrárumræða þar sem ég spurði hæstv. ráðherra út í stöðuna og hvað ætti að gera. Síðan þá hefur ekkert gerst. Það er akkúrat ekkert að gerast. Það er talað um að það séu svo margir kostir í stöðunni, en heimamenn eru búnir að heyra þessa rullu í 15 ár. Heimamenn fóru yfir málin, faglega, vandlega, algjör samstaða var um að það ætti að veðja á þá sem væru með raunhæfa kosti í stöðunni, (Forseti hringir.) eins og Alcoa. Enn á ný á að leita að einhverju öðru og ekkert gerist. (Forseti hringir.)