138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

staða atvinnuveganna.

[14:37]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við verðum að standa saman, kveður hér enn við, og ég tek undir það en ég minni bara á hver reynsla atvinnulífsins og reynsla kjósenda er af samstarfi við þessa flokka. Ég held að þetta verði að fara saman við nýtt ríkisstjórnarborð. Hér er pólitísk kreppa, hér er stjórnarkreppa þar sem stjórnarflokkarnir koma ekki áfram bráðnauðsynlegum málum í atvinnulífinu sem skapar grunn að velferð heimilanna.

Þegar hæstv. ráðherra minntist hér á að Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, hefði sagt í ræðu sinni á iðnþingi að minni hlutinn væri að þvælast fyrir gleymdi hún að nefna í hvaða samhengi það var. Jón Sigurðsson er yfirlýstur aðdáandi inngöngu í Evrópusambandið og það var í því samhengi sem hann talaði um þetta, en hann sagði jafnframt nefnilega að hann treysti Sjálfstæðisflokknum best til að leysa úr þeim málum sem hér eru fyrir framan okkur.

Allir sem um málið hugsa eru sammála um að það er orkufrekur iðnaður, nýting orkuauðlindanna í landinu, sem verður grundvöllurinn að uppbyggingu á íslensku atvinnulífi og íslenskri velferð í framtíðinni, hvort sem um er að ræða stór eða smá fyrirtæki. Þetta getur átt við stór og smá fyrirtæki. Andstæðingum stóriðju hugnast alltaf að snúa þessu yfir í umræðu um álver sem er rangt. Hvað með kísilmálm- og sólarkísilverksmiðju við Þorlákshöfn? Er ekki bara ágætt að fá slíkt fyrirtæki?

Þessi ríkisstjórn kemur sér ekki saman um nauðsynlegar aðgerðir sem verða að fara í gang til þess að af þessu megi verða. Þau hengja hatt sinn á Icesave, segja að ekki sé hægt að fjármagna virkjanir á borð við Búðarháls- og Hverahlíðarvirkjanir sem eru um 50 milljarðar kr. út af Icesave. Þetta er bara rangt. Það eru lífeyrissjóðir í landinu sem eru tilbúnir að fjármagna þetta og þessir lífeyrissjóðir hafa sagt við aðila vinnumarkaðarins (Gripið fram í.) að þessi ríkisstjórn ræði ekki við þá. (Gripið fram í: Hvar eru þeir peningar?) Þeir eru til og það er ekki rætt við þetta fólk, það hefur komið fram hjá aðilum vinnumarkaðarins. Hver er staðan í stækkun álversins í Straumsvík, hæstv. ráðherra? Af hverju er ekki búið að ganga frá samningum um framtíð þar, skautastækkunina? Hvað er með neðri Þjórsá? Hvað hafa þær tafir sem hafa orðið núna í Þingeyjarsýslum kostað (Forseti hringir.) þjóðina og okkur? Af hverju er ekki búið að ganga frá fjárfestingarsamningi út af Verne Holdings á Suðurnesjum? (Forseti hringir.)