138. löggjafarþing — 88. fundur,  9. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

424. mál
[17:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi varðandi það hvaða ráð stjórnvöld hafi til að grípa þarna inn í. Í sjálfu sér er verið að vísa til 1. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem er líka kveðið á um að hugað skuli að byggð og atvinnu í landinu, og aðgerðir sem geta haft áhrif á það eru náttúrlega þær að stjórnvöld bera í sjálfu sér ábyrgð á því eins og öðrum ákvæðum fiskveiðistjórnarlaganna. Síðan eru ýmis atriði — ég vek athygli á að þetta er tímabundið, skilgreint fyrir þau tímabil sem þarna eru — og ég held að við hljótum að vera sammála um það, ég og hv. þingmaður, að þessar aðstæður í samfélaginu, fjárhagslegt hrun og afleiðingar þess, mega ekki verða til þess að raska jafnvægi í atvinnu eða byggð í landinu, ég tala nú ekki um í þeim samfélögum sem treysta á sjávarútveginn og fiskinn. Það er alveg hárrétt, við gætum haft áhrif á það og bankinn gæti þurft að reka fyrirtæki eða hafa umsjón með því tímabundið. Skiptaráðandinn gæti þess vegna verið þar á ferð líka. Þetta er hugsað sem tímabundnar aðgerðir, vonandi þarf ekki að beita þeim en við verðum að horfa til þeirrar ábyrgðar sem lögin kveða á um í þessu sambandi.

Varðandi fjárhagsvanda fyrirtækjanna þá komu bæði Landssamband smábátaeigenda og einnig LÍÚ á fund og við ræddum fjárhagsvandræðin fyrr í haust þegar þessi mál voru til umræðu, bæði í september og október þegar við vorum að fjalla um þessi mál ásamt fleiri málum sem þá voru rædd.