138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:58]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau eru sérkennileg öll þessi umræðustjórnmál sem menn stunda á hv. Alþingi. En að halda því fram hér blákalt að kvótakerfið sem sett var á 1983 sé orsök efnahagshrunsins. Hvers konar umræða er þetta eiginlega? Svo tala sömu hv. þingmenn fyrir því að við reynum að ná sátt og stundum ekki þessi átakastjórnmál. Það er alveg hreint með ólíkindum að hlusta á þetta, virðulegi forseti.

Það sem gerðist þegar kvótakerfið var sett á, og það er ágætt að rifja það upp fyrir hv. þingmanni, var að þeir sem stunduðu atvinnu í sjávarútvegi voru skertir um 40% af atvinnuréttindunum vegna þess að álitið var að fiskstofnarnir væru hrundir, þeir væru að hrynja. Það kalla menn orsökina að efnahagshruni þjóðarinnar. Hvers konar umræða er þetta eiginlega? Þetta tekur náttúrlega út yfir allan þjófabálk að ræða þetta með þessum hætti, að þetta kerfi sem var sett á og skar atvinnumöguleika fólks um 40% og gert var fyrir 25 árum sé orsökin að efnahagshruninu. Þetta er alveg með ólíkindum. Ef við ætlum ekki að læra meira af efnahagshruninu en þetta, að afgreiða það með þessum hætti, býð ég ekki í það því að þá munum við sennilega ekkert læra af því. Það er mjög dapurlegt að standa í þeim sporum að það sé gert með þeim hætti og það er alveg með ólíkindum að við nálgumst málið með svona útfærslum og útskýringum á þessum hlutum. Þetta er náttúrlega ekki boðlegt. 95% af aflaheimildunum hafa skipt um hendur, þar eru menn að kaupa sér atvinnurétt. Og að tala um það með þessum hætti er náttúrlega algerlega glórulaus umræða. Það er mjög dapurlegt sérstaklega í ljósi þess ef menn vildu nota svona upphrópanir eins og margir hverjir hafa gert fyrir kosningar, en að ætla að læra það af efnahagshruninu og stöðunni sem við erum í í dag að þetta sé ástæðan. Ég segi bara: Guð hjálpi okkur í framtíðinni.