138. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2010.

úttekt á virkjunarkostum fyrir álframleiðslu.

91. mál
[15:39]
Horfa

Flm. (Guðfríður Lilja Grétarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og dæmin sanna eru til margvísleg önnur atvinnutækifæri en stóriðja og líka önnur en þau að einkavæða heilbrigðiskerfið á Íslandi. (Gripið fram í.) Ef gerð yrði könnun, ekki bara um umhverfisáhrifin eins og birtist í morgun heldur um viljann til að einkavæða heilbrigðiskerfið á Íslandi, (REÁ: Það er enginn að tala um það.) er ég viss um að mikill meiri hluti landsmanna, og þar með talið kjósendur Sjálfstæðisflokksins, væri því mjög mótfallinn.

Það er hins vegar alveg rétt að ein atvinnuleið er einmitt að passa upp á að niðurskurðurinn í velferðarkerfinu verði ekki eins gígantískur og hætta er á. Það leysir engan vanda að reka fólk af Landspítala – háskólasjúkrahúsi, eða af sjúkrastofnunum um landið, til þess að reisa síðan einkaspítala suður með sjó þannig að þið ættuð nú að byrja á því að passa upp á okkar eigið velferðarkerfi eins og það er til staðar.

Það er margt annað sem við getum nýtt okkar dýrmætu orkuauðlindir í, sem virkilega er svo sárt og svo dapurlegt, því að orkuauðlindir Íslands eru svo verðmætar og verða verðmætari með hverju árinu sem líður, að ég tali nú ekki um hverjum áratugnum. Það er hægt að nota þær í svo margt annað (Gripið fram í.) sem skapar meiri arð og fleiri störf en stóriðja og álver. Það er hægt að nefna metanólframleiðslu, gagnaver, koltrefjaframleiðslu, kísilmálmverksmiðju, svo margt annað sem ýmsir sem hafa hingað komið og þekkja til hafa lýst í löngu og stuttu máli (Gripið fram í.) þannig að það þarf ekki að láta eins og álver sé það eina.

Þarna er goðsögnin sem við erum eilíflega föst í, jafnvel þegar orkan virðist ekki einu sinni vera til staðar er þetta samt hrópað sem eina lausnin. Ég fullyrði að það brýtur niður frumkvæði fólks, sköpun (Forseti hringir.) og tækifæri til annarra starfa. (Gripið fram í: Ég var einmitt að segja að þetta væri ekki eina lausnin.)