138. löggjafarþing — 100. fundur,  25. mars 2010.

skuldavandi heimilanna.

[10:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta var nú undarlegt svar hjá hæstv. ráðherra en vakti nokkrar áhyggjur að hann styður ekki þetta þverpólitíska starf hjá hv. efnahags- og skattanefnd. (Gripið fram í.) Ég var að vonast til þess að hér væri góð sátt um það en hann virðist frekar vera á línu hæstv. forsætisráðherra um að það sé nokkurn veginn búið að ná utan um þetta allt saman. Ég verð þó að viðurkenna að ég missti þráðinn í útskýringu hæstv. ráðherra á því. Ég efast um að ég hafi verið einn um það.

Það eru vonbrigði að hæstv. ráðherra skuli ekki styðja hv. efnahags- og viðskiptanefnd í þessari þverpólitísku vinnu. Sömuleiðis eru það vonbrigði þegar hæstv. ráðherra segir: Þetta er allt bönkunum að kenna. Bara til upplýsingar er Landsbankinn í eigu ríkisins, við erum með heila stofnun, Bankasýslu ríkisins, fyrir ríkið til þess að hafa áhrif á bankana, (Forseti hringir.) með beinum eignarhlut ríkisins. Ég held að hæstv. ráðherra geti ekki vísað þessu frá sér.